Gæti Ísland sinnt 70 þúsund flóttamönnum?

0
452

Börn á flótta 2x 350x238

22. febrúar 2014. Hvað heldur ÞÚ að myndi gerast ef Ísland tæki á móti nærri 70 þúsund flóttamönnum?

Og hvað myndi Svíum finnast um hátt í tvær milljónir flóttamanna vegna borgarastríðs í nágrannaríki eða Dönum, Finnum og Norðmönnum um að milljón erlendir flóttamenn leituðu á náðir þeirra?  

Þetta er framandi hugsun fyrir okkur en þetta er sá raunveruleiki sem blasir við ríkjum á borð við Jórdaníu og Líbanon, þau hýsa nú um eina milljón sýrlenskra flóttamanna sem er á bilinu 19.3 til 20.7% íbúafjölda þeirra.
Þetta samsvarar að Svíar tækju við 1.9 milljón og Danir, Finnar og Norðmenn á bilinu einni til einni milljón og eitt hundrað og fimmtíu þúsund. Og við Íslendingar 67 þúsund manns.

Allt í lagi, kann einhver að segja og Vesturlönd hafa kannski ekki tekið við svo mörgum að þessu sinni. En eru það ekki iðnríkin sem taka yfirleitt við flestum flóttamönnum og rísa vart undan öllu því sem það hefur í för með sér. Ekki satt?
Nei hreint ekki.

80% af fimmtán milljón flóttamönnum í heiminum hafa leitað hælis í þróunarríkjum, aðallega í nágrannaríkjum. Þetta á við um sýrlenska flóttamenn. Meir en 2.4 milljónir Sýrlendinga hafa flúið til nágrannaríkjanna en aðeins 73 þúsund hafa fengið hæli í Evrópu.
Í fyrstu var sýrlensku flóttamönnunum vel tekið og af einstakri rausn og gestrisni í nágrannaríkjunum. Sumir áttu vini og ættingja í Jórdaníu og Líbanon og fengu að búa inni á heimilum. Eftir því sem á hefur liðið og fjöldi flóttamanna hefur aukist, hefur reynt á þolinmæðina og andúð í þeirra garð hefur aukist.

Börn á flótta 1 350x239Áhrifin eru vitaskuld mikil á allan þennan heimshluta. Skólar eru tvísetnir til að geta tekið á móti sýrlenskum börnum. Rými á sjúkrahúsum er af skornum skammti þegar Sýrlendingarnir bætast við þarfir heimamanna. Leiga hefur hækkað og laun lækkað vegna samkeppni um húsnæði og atvinnu. Vantsskortur er landlægur í Jórdaníu og Líbanon, og ekki bætir þessi skyndilega mannfjölgun úr skák.
Þá er óttast að átökin breiðist yfir til nágrannaríkja, ekki síst Líbanon, þar sem nýleg sprengjutilræði eru talin tengjast átökunum í Sýrlandi.

Færa má rök fyrir því að nágrannaríkin hafi bjargað hundruð þúsunda mannslífa með því að halda landamærunum opnum. Markku Aikomus, yfirmaður erlendra samskipti hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð segir að torsótt sé fyrir sýrlenska flóttamenn að komast til Evrópu og nánast ómögulegt að gera það á löglegan hátt.

“Af þessum ástæðum hefur eina leiðin verið að hafa uppi á smyglurum. Margir hafa borgað allt sparifé sitt til þess að komast á öruggan stað oft við mjög hættulegar aðstæður. Margir hafa týnt lífi á leiðinni yfir Miðjarðarhafið, eins og td.í slysinu við eyjuna Lampedusa. Flóttamannahjálpin hvetur til þess að boðið verði upp á aðra valkosti með því að leyfa landvist af mannúðaraástæðum eða með auknum sveigjanleika í að veita atvinnu- náms- eða mannúðarvegabréfsáritanir,” segir Aikomus.

Það næsta sem Norðurlönd hafa komist því að þurfa að taka á móti straumi flóttamanna var á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar, en þá voru 75 þúsund finnsk börn send í skjól til nágrannaríkjanna, langflest til Svíþjóðar.

(Fyrst birt í norræna fréttabréfi UNRIC, 19.febrúar, myndirnar tók Gassi fyrir UNICEF, þegar þegar flóttamannabúðir voru settar upp við Sólbrekku við Grindavík í auglýsingamyndatöku fyrir barnahjálpina.)