Gerlegt að útrýma mýrarköldu

alt

Alþjóða mýrarköldudagurinn er haldin í dag 25. apríl fjórða skipti. Þema dagsins að þessu sinni er ”Að ná árangri og hafa áhrif” og er beint sjónum að tvíefldri viðleitni alþjóðsamfélagsins til að ná því takmarki að engin látist af völdum mýrarköldu árið 2015.

altMiklar framfarir hafa orðið undanfarinn áratug í baráttunni við mýrarköldu (malaríu) í heiminum. Í grein sem Prófessor Awa Marie Coll-Seck, forstjóri Bandalagsins gegn mýrarköldu og fyrrverandi heilbrigðisráðherra Senegal, skrifar í tilefni af Alþjóðlega mýrarköldudeginum 25. apríl, segir að sá árangur sem náðst hafi sýni að hægt sé að útrýma mýrarköldu þótt slíkt krefjist mikils átaks.

Ban Ki-moon, framkvæmdstjóri Sameinuðu þjóðanna hittir Astríd, Belgaprinsessu og Awa Marie Coll-Seck, forstjóra Bandalagsins gegn mýrarköldu. Belgíska prinsessan er sérstakur sendiherra bandalagsins. SÞ-mynd: Eskender Debebe.

Fyrir áratug létust þrjú þúsund manns á dag af völdum mýrarköldu, aðallega afrískar konur og born. Þrír millljarðar manna voru í áhættuhópi og fáir höfðu aðgang að moskítónetum eða mýrarköldulyfjum. Helsta mýrarköldulyfið var orðið ónothæft gegn skeinuhættasta stofni mýrarköldu og útlitið var dökkt.

Í grein sinni sem birtist víða um heim í dag segir Coll-Seck að alþjóða mýrarköldudagurinn sé tækifæri til að benda á árangurinn sem náðst hafi. “Síðastliðinn áratug hefur sú breyting orðið á að mýrarkalda er ekki lengur vanræktur sjúkdómur heldur ofarlega á forgangslista í alþjóða heilbrigðismálum. Áþreifanlegur árangur hefur náðst: alþjóðleg fjármögnun hefur aukist þrjátíufalt, afrískum leiðtogum hefur vaxið ásmeginn, rannsóknir og þróun hafa stór aukist og nýju bandalagi til að berjast við mýrarköldu hefur verið hleypt af stokkunum.”

Breytingarnar hafa verið mestar í Afríku. Moskítónet úðuð flugnaeitri er nú dreift til 76% fólks sem er í mestri hættu og í 11 ríkjum hefur dauðsföllum fækkað um meir en helming.