Gleði og sorg er alls staðar eins

0
455

Apríl 2015. Norðurlandabúi mánaðarins hjá SÞ er að þessu sinni Finninn Janne Suvanto.

Suvanto hefur unnið fyrir Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) frá því 1997. Hann hóf feril sinn í Róm en síðan hefur leiðin legið til Kosovo, Indónesíu, Tsjad, Haítí og Máritaníu.

Hvers vegna hófstu störf fyrir Sameinuðu þjóðirnar?
Ég hafði áhuga á alþjóðastofnunum frá unga aldri. Fyrstu skrefin voru starfsnám hjá finnska sendiráðinu í Róm eftir að ég lauk Meistaraprófi í stjórnmálafræði. Það opnaði dyr fyrir því að verða „Junior Professional Officer“ á vegum Finnlands hjá WFP í Róm. Á þeim tíma vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í en ég fikraði mig vitandi vits í átt til alþjóðlegs starfsferils.

Í hverju felst núverandi starf þitt?
Í fyrsta skipti gegni ég nú stöðu landsstjóra en það þýðir að ég stýri skrifstofu WFP í Máritaníu. Í reynd felst starfið í að hafa umsjón með því að við framkvæmum allar áætlanir WFP í samræmi við reglur og markmið. Ég er í stöðugu sambandi við, til dæmis, ríkisstjórn landsins og stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað fylgjumst við með þróun fæðuöryggis í Máritaníu og reynum að bregðast við þegar nauðsyn krefur. Stærsta áskorunin í þeim efnum er að jafna aðgang íbúanna að náttúruauðlindum.

Þú hefur unnið fyrir WFP á ýmsum stöðum í heiminum. Hvaða lærdóma hefur þú dregið?
Útfrá sjónarhorni WFP þá er mikilvægt að hafa bæði reynslu af vettvangi og úr höfuðstöðvunum. Í höfuðstöðvunum getur maður skapað tengslanet og séð hvernig heildaráætlanir eru þróaðar. En að auki verður maður að vita hvernig áætlanagerð virkar í reynd. Hver staður er öðrum ólíkur og maður ætti aldrei að ganga út frá því að sama nálgunin virki alls staðar jafn vel.

Ég hef orðið opnari sem manneskja og umburðarlyndari í áranna rás. Gleði fólks og sorg eru alls staðar af sama toga. Maður finnur alltaf einhvern sem maður getur tengst, hvar sem er í heiminum.

Þú hefur orðið vitni að mörgum vandanum í starfi þínu. Hefur ástandið einhvern tíman orðið svo svart að þú hafir misst alla von?
Nei eiginlega ekki. Kreppur eru ætíð sérstakar. Það er kannski að vissu marki auðveldara að glíma við vanda sem er ekki af mannavöldum, eins og náttúruhamfarir. Það er sársaukafyllra þegar vandinn er af pólitískum toga eins og í Kosovo og Írak.

Hvernig myndir þú lýsa ástandinu í Máritaníu?
Höfuðborgin er þróaðri en sumar aðrar borgir á Sahel svæðinu. Rafkerfið og innviðirnir eru í lagi og úrval matvæla er gott.Áhinn bóginn eru 3.5 milljónir íbúa í Máritaníu en landið meir en milljón ferkílómetrar og því eru stór svæði mannlaus. Þjónusta og skólar eru á hinum fáu þéttbýlissvæðum en í stórum hluta landsins er ekki neitt slíkt í boði.

Stundum er engu líkara en að fólk sé óttaslegið vegna þess að Máritanía er íslamskt ríki. Að mestu leyti er Íslams-trú af hófsamari taginu þótt hefðbundnari trúariðkun tíðkist í austurhluta landsins. Að mínu mati er Íslam Marítaníu að mörgu leyti ólíkt því sem gengur og gerist í öðrum ríkjum múslima. Máritanía hefur verið kölluð land ljóða og vísinda og á 12.og 13.öld voru margar helstu borgir arabískrar menningar í Máritaníu.

Hvað gerir þú í frítíma þínum?
Það eru ekki margir kostir í boði í Máritaníu. Ég hef skoðað rústir gamalla borga í eyðimörkinni og það eru algjörlega ósnortnar baðstrendur. Að auki eru fjórir aðalvegir frá höfuðborgini og ég hef ekið um þá alla. Félagslíf er takmarkað en ég hef gott samband við marga utan vinnu. Áfengi er bannað á veitingahúsum, þannig að oft býður fólk vinum í grillveislur í heimahúsum.