Gleymum aldrei helförinni

0
488

 Holocaust

27. janúar 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að nútímamenn geti enn þann dag í dag sótt innblástur í  fordæmi þeirra sem björguðu gyðingum frá Helförinni. Sameinuðu þjóðirnar minnast Helfararinnar í dag, en á þessum degi árið 1945 frelsaði Rauði herinn útrýmingarbúðirnar Auschwitz-Birkenau úr höndum Nasista.

Milljónir gyðinga, Roma og Sinti-fólks, homma, kommúnista og andlega vanheils fólks  voru myrtar af böðlum nasista á árum síðari Heimsstyrjaldarinnar í því sem síðan hefur verið kallað Helförin.

Þema alþjóðlega minningardagsins um helförina að þessu sinni er tileinkað hugrekki þeirra sem lögðu líf sitt og fjölskyldna sinna í hættu við að bjarga gyðingum og öðrum frá nánast öruggum dauðdaga á valdaárum Nasista.

“Saga margra þeirra er þekkt, eins og til dæmis hetjudáðir sænska stjórnarerindrekans Raoul Wallenberg sem bjargaði tugþúsundum Gyðinga í Búdapest,” segir Ban Ki-moon í ávarpi sinu á Helfarar-daginn. “En sögur margra eru einungis kunnar þeim sem bjargað var. Dagurinn að þessu sinni er helgaður viðleitni til að auðga söguþekkingu okkar og veita hetjunum þann sess sem þær eiga skilið.”

Því miður heyrir Gyðinga-hatur ekki sögunni til. Í könnun sem Pew rannsóknamiðstöðin gerði árið 2011 er andúð á Gyðingum landlæg í mörgum ríkjum múslima. Í Egyptalandi höfðu þannig 94% mjög neikvæða ímynd af Gyðngum. Í Miðausturlöndum má finna barna- og kennslubækur þar sem Gyðingar eru sýndir sem skrýmsli og í sjónvarpsþáttum og dægurlögum er Gyðingum líkt við svín, vampírur eða álíka.  

Alþjóðlegi dagurinn þjónar líka því hlutverki að minna fólk um allan heim á að fjölmargir líða fyrir mismunun og jafnvel ofbeldi fyrir engar aðrar sakir en vera þeir sem þeir eru.
 “Í dag um leið og við minnumst þeirra sem létust í Helförinni, hvet ég allar þjóðir til að vernda þá sem standa höllustum fæti, án tillits til litarháttar, kynþáttar, kyns eða trúarbragða,” segir Ban í ávarpi sínu.


Mynd: frá sýningunni „Með mér eru sex milljónir með-ákærenda: Réttarhöldin yfir Adolf Eichmann í Jerúsalem“ sem haldin var 2012 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. SÞ/Mark Garten