Grænland: Rauð málning í stað hátíðahalda

0
871
Græland frumbyggjar
Styttan af Hans Egede. Quais du Polar Lyon/Flickr/Attribution 2.0 Generic (CC BY 2.0)

Styttan af Hans Egede trónir yfir Nuuk, höfuðborg Grænlands. Deilur um styttuna hafa skygt á þrjú hundruð ára afmæli komu norsk-danska trúboðans til Grælands. Í tilefni af Alþjóðlegs dags frumbyggja heimsins 9.ágúst beinum við sjónum okkar að Inúítum Grænlands sem eru ásamt Sömum frumbyggjar Norðurlanda.

Eftir að slagorð gegn nýlendustefnu (decolonize) var skrifað á styttuna af Egede og  rauðri málningu slett á hana á þjóðhátíðardegi Grænlendinga 21.júní var ákveðið að skjóta framtíð styttunnar til borgarbúa í atkvæðagreiðslu.

Þótt meirihluti hafi lagst gegn því að taka styttuna niður var þátttaka afar lítil. Hins vegar hefur deilan orðið til þess að ákveðið var að hætta við að fagna 300 ára afmælis komu Egede til Grænlands 3.júlí 1721.

Höfðinu styttri

Grænland frumbyggjar
Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Egede verður fyrir barðinu á skemmdarverkum. Styttan hefur áður verið gerð höfðinu styttri. Egede er ekki aðeins umdeildur fyrir þær sakir að koma hans hafi markað upphaf danskra yfirráða á Grænlandi. Hann er einnig talinn bera ábyrgð á upprætingu fornrar menningar Inúíta, ekki síst trúar þeirra.

Aki-Matilda Høegh-Dam, grænlensk þingkona á danska þinginu hefur lagt til að syttan verði tekin niður og flutt á safn. „Styttan stendur á hæð og vakir yfir Nuuk. Þegar upp er staðið er hún tákn nýlenduveldis,” sagði hún í viðtali við danska ríkisútvarpið.

Annus horribilis fyrir styttur

Styttur heimsins hafa átt erfitt uppráttar á fyrstu árum þriðja áratugar tuttugustu og fyrstu aldar, einkum þær sem tengjast nýlenduherrum. Hins vegar eru langflestir Grænlendingar lúterstrúar og það kann að vera ein ástæða fyrir því að Egede hefur að mestu verið látinn í friði.

Grænland frumbyggjar
Nuuk. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Þótt Grænlendingar færist nær aukinni sjálfstjórn og jafnvel aðskilnaði frá Danmörku, er sjálfstæðishreyfingin engan veginn andsnúin kristinni tru. Fyrsti forsætisráðherra Grænlands 1979 var þannig presturinn Jontathan Motzfeldt.

Það er athyglisvert að 250 ára afmæli komu Egede var fagnað innilega fyrir hálfri öld. Margrét Danadrottning tók meðal annars þátt í hátíðahöldunum. Að sögn Aviaq Fleischer, fræðikonu við háskóla Grænlands var Egede löngum talinn „mildur nýlenduherra” og margir þakklátir honum fyrir kristniboð hans.

„Grænlendingar voru lengi mjög trúaðir og drógu vald yfirvalda ekki í efa. Egede sætti því engri gagnrýni, auk þess sem margir voru honum þakklátir fyrir að hafa fært Grænlendingum kristna trú. Eftir því sem hreyfingunni, sem færði okkur heimastjórn 1979 óx ásmeginn, með svokallaðri Grænlandsvæðingu, var Egede tekinn til endurskoðunar. Vald hans og kristnun Grænlands sættu gagnrýni,” segir Fleischer í viðtali við vefsíðu UNRICs.

Endurmat fortíðar

Grænland frumbyggjar
Grímur á Grænlandssafni. Mynd: Lebatihem/Flickr/ Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0)

Það var ekki síst í bókmenntum og tónlist sem spjótum var beint að Egede. Rokkhljómsveitin Unneraarsuit flutti lag þar sem forn menning Inúita var lofuð og Egede sakaður um að vera „skratti” sem hafi upprætt hana.

Endurmatið náði einig til Danmerkur, til dæmis í verðlaunabókum dansk-norska rithöfundarins Kim Leine (Spámennirnir í Botnleysufirði, Rauður maður, svartur maður).

Það er kaldhæðnislegt að koma Hans Egede var byggð á misskilningi. Hann ætlaði sér vissulega að stunda trúboð en ekki á meðal Inúíta heldur norrænna manna. Þeir fluttust búferlum að mestu frá Íslandi um árið þúsund. Þeir höfðu verið sambandslausir við umheiminn, að þvi er talið var, í meir en tvö hundruð ár þegar hér var komið við sögu. Með öðrum orðum höfðu þeir misst af siðbótinni og Egede hugðist ráðast gegn pápísku og uppfræða þá um kenningar Lúthers. Egede fann enga Norðurlandabúa, en nú er talið að þeir hafi dáið út á Grænlandi um 1500.

90% Grælendingar eru Inúitar. Hinir fyrstu komu þangað fyrir 4-5 þúsund árum, en um sex mismunandi menningarsamfélög er að ræða. Þeir Inúítar sem nú byggja Grænland komu á svipuðum tíma eða heldur á eftir norrænum mönnum undir forystu Eiríks rauða í kringum árið þúsund.

Enn meiri misskilningur

Grænland frumyggjar
Grænlendingar eru upp til hópa sannkristnir. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Egede misskildi sennilega fyrsta orðið sem hann lærði á grænlensku. Þegar Egede sýndi heimamönnum mynd af skaparanum, lyftu þeir höndum og sögðu„asune“. Taldi hann þetta til marks um að þeir þekktu til Guðs í upphæðum. Síðari tíma sagnfræðingar hafa hins vegar leitt getum að þvi að þeir hafi sagt „asuki“,  eða „ég veit það ekki” og lyft höndum til áhersluauka.

Þegar engum pápískum Norðurlandabúum var til að dreifa, snéri Egede sér að Inúítunum. Hann barðist harðri baráttu gegn fornri trú þeirra, ekki síst Angakkuq eða seiðmönnunum.

Heimildir herma að hann hafi úthúðað Grænlendingum, hótað þeim og refsað og helst viljað hneppa þá í þrældom. Óneitanlega var á brattann að sækja og hann sýndi kænsku við kristniboðið. Tilgangslaust var að láta Inúíta biðja fyrir „daglegu brauði” því þeir höfðu aldrei séð slíkt. Þess vegna lét Egede söfnuð sinn biðja fyrir „daglegum sel.”

Arfleifð múmíanna

Grænland frumbyggjar
Múmíurnar á þjóðminjasafninu í Nuuk. David Stanley/Flickr/ Attribution 2.0 Generic (CC BY 2.0)

Fádæma vel varðveittar fimm hundruð ára gamlar múmíur á grænlenska þjóðminjasafninu eru þögull vitnisburður um forna tíma og horfnar siðvenjur. Andlit og líkamar múmíanna voru húðflúrúð og eru táknin talin tengjast ýmsum áföngum á mannsæfinni og fornri trú hinna framliðnu.

Hluti þess að færa Inúítum „siðmenninguna” var að uppræta slíka forneskju. Húðflúrið á borð við það sem sjá má á múmíunum á Grænlandssafninu nýtur nú vinsælda á ný. Egede og eftirmönnum hans tókst hins vegar svo vel upp í að berjast gegn sínum siðum að „tattú” stofur höfðu verið reknar um árabil á Grænlandi áður en nokkrum manni datt í hug að leita í eigin smiðju að táknum.

Fleischer segir að Grænlendingar leiti jafnt til Norðurlandabúa sem og annara Inúita og frumbyggja eftir samstarfi, hugmyndum og innblæstri. „Við getum ekki litið framhjá sögunni“, segir Fleischer. „Við erum undir miklum áhrifum frá Dönum og Norðurlandaþjóðunum. Ef einhver veikist mjög alvarlega er flogið með hann til Íslands eða Danmerkur til aðhlynningar. Þessa sjást merki í daglegu lífi okkar. Hins vegar finnum við líka til skyldleika með öðrum frumbyggjum. Þetta sést í myndlist og tónlist og má benda á lag við enskan texta og myndband hljómveitarinnar Uyarakq – Move, I’m Indigenous (Official Music Video) – YouTube.

Deilurnar um hvort fagna beri 300 ára afmælis komu Egede til Grænlands er ekki lokið heldur hefur málinu verið slegið á frest. Sveitarfélagið sem hýsir Nuuk ákvað einfaldlega að láta kyrrt liggja í ár. Hins vegar er stefnt að hátíðahöldum árið 2028 en þá eru þrjár aldir frá því að Egede flutt kristniboðsstöð sína til Nuuk eða Godthåb eins og bærinn hét þá.

Heimildir: Hans Christian Gulløv (ritstjóri), Grønland. Den Arktiske Koloni. (Gads Forlag, 2017), https://visitgreenland.com/ og fjölmiðlar.