Grípum gæsina!

0
493
alt

Grípum gæsina! 

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, forseti Tyrklands og forsætisráðherra Nepals skrifa:

Leiðtogum heimsins býðst tækifæri á ráðstefnunni sem nýhafin er í Istanbúl í Tyrklandi til að slá tvær flugur í einu höggi: að blása nýju lífi í varanlegan og stöðugan efnahagsbata í heiminum og að standa við langtíma skuldbindingar um að minnka fátækt, hungur og sjúkdóma í 48 fátækustu ríkjum heims.

altÞetta er fjölbreyttur ríkjahópur – 33 Afríkuríki, 14 í Asíu og Eyjaálfu og eitt (Haítí) á vesturhveli jarðar- en þau hafa eitt sameiginlegt markmið: að taka aukinn þátt í efnahagslífi heimsins. Síðastliðinn áratug hefur samanlagður útflutningur ríkjahópsins fimmfaldast og hlutur þeirra í heimsviðskiptum tvöfaldast. En þótt íbúafjöldinn sé níu hundruð milljónir eða 12 prósent jarðarbúa, framleiða minnst þróuðu ríkin aðeins 1 prósent af útflutningi heimsins og njóta aðeins tveggja prósenta af fjárfestingum í heiminum.

Tveir af þremur greinarhöfundum á ráðstefnunni í Istanbúl í gær: Ban Ki-moon og Abdullah Gül, forseti Tyrklands. SÞ-mynd: Evan Schneider.

Minnst þróuðu ríkin bjóða upp á gríðarmikla og nánast ónýtta fjárfestingar-möguleika sem gætu nýst til þess að knýja nauðsynlegan bata í efnahagslífi heimsins án þess að létta pyngju þróaðra ríkja um of. Leiðtogar G-20 ríkjanna viðurkenndu þetta á fundi sínum á síðasta ári í Seoul.

 

Á síðustu árum hefur mælst stöðugur hagvöxtur í meir en helming minnst þróuðu ríkjanna. Vöxturinn hefur byggst á spurn eftir vörum þeirra, aukinni fjölbreytni efnahagsgrunnsins eða nánari staðbundinni efnahagssamvinna. Nepal, sem nú um stundir situr í forystu hóps minnst þróuðu ríkjanna, er dæmigert fyrir mörg þessara ríkja sem reyna að efla nauðsynlega félagslega þjónustu, glæða gagnsæja og öllum opna stjórnunarhætti og skapa skilvirkt umhverfi fyrir atvinnulíf 21. aldarinnar. 

En minnst þróuðu ríkin flýja ekki fjanda sína svo létt. Loftslagsbreytingar setja einkum strik í reikninginn. Minnst þróuðu ríkin losa minni gróðurhúsalofttegundir en nokkrir aðrir ríkjahópar. Efnahag þeirra, sem byggir mikið á landbúnaði, stafar mikil hætta af afleiðingum loftslagsbreytinga. Eyðimerkurmyndun ógnar mörgum ríkjanna en hækkun yfirborðs sjávar og hitabeltisstormar herja á önnur. Ríki á borð við Nepal horfast svo í augu við alfarlegar afleiðingar minnkunar jökla.

Hækkandi matvælaverð að undanförnu er ákveðinn prófsteinn. +Flest minnst þróuðu ríkjanna flytja inn meiri matvæli en þau flytja út. Helmingur íbúanna búa við sárafátækt. Þriðji hver maður er vannærður. Núverandi landbúnaðarframleiðslu eru takmörk sett. En á hinn bóginn býður vannýting ræktanlegs lands upp á umtalsverð tækifæri til að auka heimsuppskeruna, auka næringaröryggi heimafyrir og milda áhrif matvælaverðbólgu sem hefur – eins og við höfum séð- ógnað félagslegu og pólitísku öryggi um allan heim.

Ríki heims hafa auðveldlega efni á flestum þeirra aðgerða sem eru til umræðu á fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um minnst þróuðu ríkin í Istanbúl. Þróunaraðstoð ríkjanna í norðri hefur verið rausnarleg og hefur aukist undanfarinn áratug. Við vonumst til að þessi þróun haldi áfram.  Aðstoð við minnst þróuðu ríkin er auðveldlega hægt að auka því hún er aðeins fjórðungur heildaraðstoðarinnar og hún gæti skilað öllum hlutaðeigandi umtalsverðum arði.

Það myndi greiða fyrir að bæta grunnvirki ríkjanna, þjálfa hinn mikla mannauð sem þau búa yfir og tryggja aðgang að tækni og þekkingu. Allt þetta stuðlar að því að laða að meiri erlenda fjárfestingu. Og raunar er hæfnisuppbygging eitt helsta þema ráðstefnunnar í Istanbúl.

Við vildum einnig gjarnan sjá meiri hvata fyrir fjárfesta sem vilja ná fótfestu á mörkuðum sem byggja að mestu á hráefnavinnslu í því skyni að skjóta fleiri rótum undir atvinnulífið. Í þessu felst meðal annars að brjóta niður hindranir á útflutningi frá minnst þróuðu ríkjunum og að staðið verði við fyrirheit sem samstaða náðist um í Monterrey og í Doha-yfirlýsingunni um fjármögnun þróunar. Rannsóknir hafa sýnt að fullkomlega kvóta- og tollalaus aðgangur að mörkuðum myndi vart hafa sjáanleg áhrif á hag framleiðenda í innflutningslöndunum, en myndi skipta sköpum fyrir minnst þróuðu ríkin.  Að sama skapi myndi það losa fjármagn til uppbyggingar grunnvirkis og framleiðsgetu, ef skuldabyrði væri létt af minnst þróuðu ríkjunum.

Eitt er það sem gefur okkur vonir en það er almennur framgangur suðurhluta veraldar. Tölur frá Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UNCTAD) sýna að bein erlend fjárfesting fyrirtækja í hinum rísandi hagkerfum þróunarlandanna jókst og sló met árið 2010. Mikill hluti þessarar fjárfestingar fer til minnst þróuðu ríkjanna. Til viðbótar við aukin viðskipti og aðstoð, eru lönd eins og Indland, Brasilía, Kína, Suður-Afríka og Tyrkland minnst þróuðu ríkjunum gott fordæmi innan vébanda suður-suður samvinnunnar.

Fyrir sitt leyti vinna minnst þróuðu ríkin hörðum höndum að því að vinna bug á ýmsum félagslegum-, efnahagslegum- og umhverfslegum kvillum sem þau glíma við. Þetta er forsenda þess að þau geti slegist í hóp hinna miklu rísandi hagkerfa sem notið hafa þeirrar velgengni sem raun ber vitni undanfarna tvo áratugi, meðal annars þökk sé pólítiskum- og efnahagslegum umbótum.  Einungis með því að finna þessum ríkjum fyllra efnahagslegt hlutverk á heimsvísu, getum við komið af stað þeim efnahagslegu straumum sem geta fleytt oft og tíðum óstöðugum ríkjum í átt til þess öryggis og stöðugleika sem öll veröldin þarfnast.

Með því að fjárfesta í minnst þróuðu ríkjunum sigra allir: hefðbundnir veitendur þróunaraðstoðar, rísandi hagkerfi, einkageirinn og – síðast en ekki síst – nærri einn milljarður manna sem á skilið að njóta réttar síns til félagslegra framfara og betri lífsafkomu. Tækifærið býðst í Istanbúl 9. maí. Grípum gæsina þegar hún gefst!

Abdullah Gül, forseti Tyrklands
Jhala Nath Khanal, forsætisráðherra Nepals
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna