Guði sé lof fyrir Gustavsbergið!

0
576
Alþjóðlegi salernisdagurinn
Heilbrigði allra er að veði þegar salernisaðstaða er annars vegar. Mynd: UN Water

Hverjum er ekki sama um salerni? jú 3.6 milljörðum manna stendur svo sannarlega ekki á sama um salerni. Allt þetta fólk – nærri helmingur mannkyns- býr ekki svo vel að hafa aðgang að öruggu salerni sem stenst lágmarks hreinlætis- og heilbrigðiskröfur. 19.nóvember er Alþjóðlegi salernisdagurinn. 

 Við ættum reyndar öll að vera þakklát fyrir postulínið okkar því líf án salernis felur ekki aðeins í sér óhreinlæti og niðurlægingu, heldur er það beinllínis hættulegt.

Alþjóða salernisdagurinn
Indónesía. Mynd: UNICEF

Neyðarleg bannhelgi hvílir á því að tala um þá vá sem felst í salernis- og hreinlætisskorti stórs hluta heimsbyggðarinnar, en þagnarmúrinn er að rofna. Þannig er sérstakt tillit til þessa málaflokks í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Þar segir að stefnt sé að því að allir jarðarbúar hafi aðgang að klósetti fyrir 2030.

Á Alþjóðlega salernisdeginum (World Toilet Day) er athygli vakin á þemanu „sómasamleg salerni.”

Að ganga örna sinna á almannafæri

Þegar jafnvel aðeins ein manneskja í tilteknu samfélagi hefur ekki aðgang að öruggur salerni er það ógn við heilbrigði allra. Skortur á hreinlæti er ávísun á óhreina vatnsbrunna, mengaðar ár, vötn og strandlengjur. Þetta veldur því að banvænir sjúkdómar breiðast út á meðal fólks. Ein af ástæðum þess að smitsjúkdómar þrífast er að fólk sem ekki hefur salerni verður að gera sér að góðu að ganga örna sinna á almannafæri.

Ekki færri en tveir milljarðar manna þurfa að sætta sig við að drykkjarvatn þeirra er mengað af skólpi. Á hverju ári deyja sjö hundruð börn undir fimm ára aldri af niðurgangspest. Þetta má rekja til mengaðs vatns og lélegs hreinlætis. Klósett bjarga hreinlega mannslífum.

En þetta eru ekki einu afleiðingar salernisskorts. Þær snerta mannréttindi, ekki síst jafnrétti kynjanna, en einnig menntun, efnahag og umhverfismál.

Alþjóða salernisdagurinn
Vaishnavi Navalji Dadmal, 9 ára stillir sér upp við almenningssalerni.

Fyrir hvern Bandaríkjadal eða íslenska krónu sem er notaður til fjárfestinga í hreinlæti á borð við salerni, skila sér fimm tilbaka í lækniskostnaði og aukinni framleiðni. Á sama tíma skapast störf í þjónstugreinakeðjunni.

Mannréttindi fyrir konur

Fyrir konur og stúlkur er aðgangur að salerni heima, í skóla eða í vinnu skilyrði fyrir því að þær nái að njóta hæfileika sinna. Þetta á sérstaklega við þegar þær eru á blæðingum eða þungaðar. Ekki er óalgengt að konum sé nauðgað þegar þær leita að afviknum stað til að létta á sér. Auk þess að eru þær berskjaldaðar fyrir kynferðislegu ofbeldi við slíkar aðstæður að ekki sé minnst á að verða fyrir barðinu á skaðlegum dýrum.

Aðgangur að salerni og hreinlætisaðstöðu er á meðal grunnþarfa. Salerni geta skipt sköpum um skólagöngu stúlkna, auk þess að vera þýðingarmikið atriði í heilbrigði og öryggi kvenna.

„Salerni bjarga mannslífum og eru hreyfiafl í þágu jafnréttis kynjanna,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á Alþjóðlega salernisdaginn.

„Við þurfum á brýnum og umfangsmiklum fjárfestingum og nýsköpun að halda í allri „hreinlætiskeðjunni“; allt frá salernum til flutnings, söfnun og úrvinnnslu mannlegs úrgangs.“

Covid-19 hefur minnt hressilega á hve lífsnauðsynlegt það er, að geta þvegið hendur vel, oft og rækilega. En þegar heimsfaraldurinn braust út gátu þrír af hverjum tíu jarðarbúum ekki þvegið hendur sínar með sápu og vatni á heimilum sínum.

Þannig að hverjum ætti að standa á sama um salerni? Svarið er að við ættum öll að þakka Guði fyrir Gustavsbergin eða hvaða nafni sem ”postulínið” sem við höfum greiðan aðgang að heitir.