Gunnar Bragi: Kona taki við af Ban

0
440
Gunnar B

Gunnar B

2.október 2015. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hvatti til þess að kona yrði næsti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

„Eftir að átta karlmenn í röð hafa gegnt starfi aðalframkvæmdastjóra, er löngu kominn tími til að hæfar konur komi alvarlega til álita til að gegna þessu mikilvæga alþjóðlega starfi. Sama gegnir um forsæti Allsherjarþingsins. Það verður að leiðrétta kynjahallann í æðstu stöðum til að auka trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna.“

Utanríkisráðherra gerði að umtalsefni mál Ali Mohammed al-Nimr sem bíður dauðarefsingar í Saudi Arabíu. Lýsti ráðherra sérstökum áhyggjum af stöðu hans og hvatti þarlend stjórnvöld eindregið til að þyrma lífi hans. 

Utanríkisráðherra fagnaði samþykkt Heimsmarkmiðanna og tilgreindi sérstaklega markmið á sviðum sjálfbærrar nýtingar á náttúruauðlindum, orkumála, jafnréttis og taugaskaða. Gunnar Bragi gerði loftslagsmál og áhrif þeirra á norðurskautið að umtalsefni og áréttaði mikilvægi þess að árangur náist á loftslagsráðstefnunni í París í desember. Greindi ráðherra frá markmiðum Íslands, í samvinnu við ríki Evrópusambandsins og Noreg, um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.

Gunnar Bragi áréttaði að mannréttindi séu fyrir alla, á því byggist hugsjón Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði Ísland myndu halda jafnréttismálum á lofti og lagði áherslu á HeforShe jafnréttisátakið og Rakarastofur sem beinast frekast að karlmönnum og ábyrgð þeirra í jafnréttisbaráttunni.

Utanríkisráðherra fjallaði um flóttamannavandann og greindi frá framlögum Íslands til flóttamanna- og mannúðarstofnana á vettvangi og móttöku flóttamanna til Íslands. Sagði ráðherra mikilvægt að ráðast að rót vandans og minnti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á skyldur sínar og ábyrgð í þeim efnum.

Hér má lesa ræðu utanríkisráðherra.

Ljósmynd: SÞ/Cia Pak