Guteress: ferðamennska er hluti af lausninni

0
700
Ferðamennska, COVID-19
James Diewald/ Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0)

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að ferðamennska geti haft hlutverki að gegna í að vinna bug á COVID-19 og afleiðingum faraldursins

Aðalframkvæmdastjórinn, António Guterres, bendir á að ferðaþjónustan hafi verið á meðal þeirra atvinnugreina sem verst hafi orðið úti í faraldrinum; ferðum hafi fækkað, ótti aukist og framtíðin sé óviss.

Ferðaþjónusta og Heimsmarkmið

„Ferðamennska er ein af styrkum stoðum áætlunarinnar um Sjálfbæra þróun 2030. Margir hafa lífsviðurværi sitt af ferðaþjónustunni, ekki síst konur og íbúar berskjölduðustu ríkja heims, þar á meðal lítílla ey-þróunarríkja og minnst þróuðu ríkja heims,” segir Guterres.

„Þar að auki er víða um heim treyst á ferðamennsku þegar verndun fjölbreytni lífríkisins er annars vegar. Það gildir jafnt um ákvarðanir um verndun og tekjur sem slíkar aðgerðir skapa.“

Þá segir Guterres að ferðamennska geti verið vettvangur til að vinna bug á faraldrinum. „Með því að stefna fólki saman getur ferðamennska verið aflvaki samstöðu og trausts – sem eru nauðsynleg til að glæða alheimssamvinnu sem svo sárlega er þörf þessa stundina.“

Ferðamennska og COVID-19
Ferðamenn í Frakklandi. Modestine L’ânesse des Cévennes / Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0)

Guterres lauk máli sínu með því að eggja ferðageirann til aðgerða. „Ég hvet alla þá sem hlut eiga að máli í ferðaþjónustunni að endurbyggja betur, með loftslagsaðgerðum og öðrum skrefum til að byggja upp sjálfbærni og þolgæði. Á vegferð okkar til betri framtíðar, ber okkur að strengja þess heit að skilja engan eftir.“

Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (WTO, World Tourism Organization) hefur tekið saman vegvísi til að enduræsa ferðaþjónustuna. Í vegvísinum er farið yfir aðgerðir og forgangsatriði fyrir komandi mánuði frá lausafjárskorti fyrirtækja sem standa höllum fæti til opnunar landamæra og samræmingar heilsufarsákvæða og ferla.

Sjá nánar hér og hér.