Guterres á COP28: „Örlög mannkynsins eru í húfi”

0
12
Fundarsalur á COP28

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. COP28. Loftslagsbreytingar. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í opnunarræðu Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að „örlög mannkynsins væru í húfi á COP28 í Dubai.

„Við búum yfir tækninni til að koma í veg fyrir mestu loftslagsóreiðuna – ef við grípum þegar í stað til aðgerða,“ sagði Guterres.

Guterres í ræðustól á COP28 í dag.
Guterres í ræðustól á COP28 í dag. COP28/Walaa Alshaer

„Við erum víðsfjarri því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um viðnám við loftslagsbreytingum – og örskammt frá því að rjúfa 1.5 gráðu markið. En það er ekki of seint.“

Hann benti á að Loftlslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefði þegar birt vegvísi um hvernig hlýnun yrði haldið innan 1.5 gráðu hámarksins.  „En við þurfum forystu – samvinnu – og pólitískan vilja. Og við þörfnumst þess nú þegar.“

Hætta verði bruna jarðefnaeldsneytis með öllu

Að mati aðalframkvæmdastjórans er gríðarlegs niðurskurðar losunar þörf til þess að koma í veg fyrir „sjóðandi heitri þriggja gráðu hækkun hitastigs á jörðunni.“ Hann hvatti ríki heims til að hraða áætlunum um að ná nettó-núll losunartakmarki, eins nærri 2040 og hægt væri í þróuðum ríkjum og 2050 í ríkjum á þróunarbraut.

„Vísindalegar niðurstöður eru afdráttarlausar. Einungis er hægt að takmarka hlýnun við 1.5 gráðu með því að hætta alfarið öllum bruna jarðefnaeldsneytis. Ekki draga úr. Ekki minnka. Heldur hættta hægt og bítandi með skýrum tímaáætlunum með það fyrir augum að halda hlýnin innan við  1.5 gráðu hámarkið,“ sagði Guterres.

Hnöttur á bás Indónesíu á COP28.
Hnöttur á bás Indónesíu á COP28. COP28/Walaa Alshaer

„Boðskapur minn til leiðtoga olíufyrirtækja eru þessi: ykkar vegferð er á enda. Ekki þráast við að halda fast í úrelt viðskiptamódel. Leiðið umskiptin til endurnýjanlegrar orku.“

Samkomulag um sjóð

 Tilkynnt var við upphafi COP28 í gær að samkomulag hefði tekist, sem greiðir fyrir því að sjóður ætluðum þróunarríkjum hefji starf. Hann á að hjálpa veikburða ríkjum að kljást við „tap og tjón“ af völdum loftslagbreytinga.

„Þessar fréttir fela í sér góðan byr fyrir loftlsagráðstefnuna,“ sagði Simon Stiell forstjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna á blaðamannafundi þar sem samkomulagið var kynnt. „Ríkisstjórnum og samningamönnum ber að færa sér þennan byr í nyt og tryggja metnaðarfullt samkomulag hér í Dubai.“

Sjá nánar hér.