Guterres áhyggjufullur yfir niðurskurði framlaga Norðmanna

0
514
Guterres Jonas Gahr Støre forsætisráðherra
António Guterres og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra 2019. UN Photo/Mark Garten

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna átti í gær símtal við forsætisráðherra Noregs. Þar lét hann í ljós áhyggjur af miklum fyrirhuguðum niðurskurði framlaga til stofnana Sameinuðu þjóðanna í frumvarpi til endurskoðaðra fjárlaga 2022. Ætlun norsku stjórnarinnar er að niðurskurðurinn vegi upp á móti miklum fjárútlátum vegna mótttöku flóttamanna frá Úkraínu.

Í símtali aðalframkvæmdastjórans og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra í gær, þakkaði António Guterres Norðmönnum langvarandi og rausnarleg framlög til Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar  lýsti hann einnig áhyggjum af afleiðingum niðurskurðar framlaga til mikilvægra stofnana Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Þróunarstofnunarinnar (UNDP), til að fjármagna móttöku flóttamanna.  Í yfirlýsingu norska forsætisráðherrans kom fram að Støre hefði hlustað á skoðanir aðalframkvæmdastjórans. Hann fullivssaði hann um að Noregur legði þunga áherslu á að halda áfram stuðningi vð Sameinuðu þjóðirnar jafnt höfðustöðvar þeirra sem á vettvangi atburða.

Guterres gagnrýndi niðurskurð til þróunaraðstoðar

Í síðustu viku gaf Guterres aðalframkvæmdastjóri út yfirlýsingu þar sem hann sagði að fyrirsjáanleg og aukin framlög væru þýðingarmikil fyrir Sameinuðu þjóða-kerfið ef takast ætti að „bjarga Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og veita mannúðaraðstoð.“

 Hann sagði að mörg ríki hefðu náð því markmiði að verja 0.7% af þjóðartekjum til þróunaraðstoðar. Hins vegar væru teikn á lofti um að sum ríki hefðu í hyggju að skera niður þróunaraðstoð verulega, þrátt fyrir skuldbindingar sínar. „Þetta er áhyggjuefni og aðalframkvæmdastjórinn hvetur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að hugsa sig um því niðurskurður hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem standa höllustum fæti á erfiðum tímum,“ sagði í yfirlýsingu.

95% niðurskurður til UNDP

Niðurskurður Norðmanna til stofnana Sameinuðu þjóðanna er róttækur samkvæmt tilllögu stjórnarinnar. Hún kveður á um helmings niðurskurð framlaga til Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Mannréttindaskrifstofu samtakanna (OHCHR). Framlög til Barnahjálparinnar (UNICEF) og Jafnréttisstofnunarinnar (UN Women) eru skorin niður um þrjá fjórðu. Þá skera Norðmenn niður framlag sitt til Þróunarstofnunarinnar um hvorki meira né minna en 95%. Hins vegar eru framlög aukin til Matvælastofnunarinnar (WFP) um 150%.

„Allt í allt felur þetta í sér 14% niðurskurð til stofnana Sameinuðu þjóðanna og þetta mun grafa undan starfi samtkanna í þágu Heimsmarkmiðanna, friðar og þróunar í heiminum,“ segir Ellen Sporstøl, starfandi framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna i Noregi.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna hefur ekki meirihluta á þingi. Um helgina fara fram viðræður við flokk vinstri-sósíalista um fjáraukalögin. Talskona þeirra í utanríkismálum hefur gagnrýnt niðurskurðartillögurnar. Bent hefur verið á að niðurskurðurinn skjóti skökku við á sama tíma og tekjur Norðmanna af sölu olíu og gas hafi stóraukist í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.