Guterres: alvarleg hætta á að COP26 skili ekki árangri

0
590

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að þrátt fyrir heitstrengingar ýmissa ríkja í aðdraganda COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sé lítil ástæða til bjartsýni.

 Hann lét þessi orð falla á blaðamannafundi í Róm síðdegis, en hann er staddur þar til skrafs og ráðagerða við leiðtoga G20, hóps auðugustu ríkja heims.

 „Við skulum tala skýrt – það er alvarleg hætta á að ekki náist fullnægjandi árangur í Glasgow, þótt margar nýlegar yfirlýsingar kunnni að gefa annað til kynna. Því miður er það blekking. Samanlegt leiða núverandi landsmarkmið – formlegar skuldbindingar ríkisstjórna- til hlýnunar jarðar um 2.7 gráðu á öldinni.“

Aðalframkvæmdastjórinn sagði að jafnvel þótt öll fyrirheit væru skýr og trúverðug, sem þau væru ekki öll, værum við enn á leið til loftslagshamfara.

„Ef við viljum raunverulegan árangur, en ekki aðeins sýndarárangur, þurfum við meiri metnað og meiri aðgerðir. Það gerist aðeins með miklum pólitískum vilja. Og það krefst þess að traust ríki á milli helstu aðila. Og það er ekki til staðar í dag. Það ríkir of mikið vantraust,“ sagði Guterres.

  Sagði hann það verkefni G20 fundarins í Róm um helgina að leitast við að endurnýja traust á milli aðila.

COP26 hefst á sunnudag 31.október.