Guterres: Hættum kolanotkun

0
813
Dagur Móður Jarðar

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til þess að notkun kola við rafmagnsframleiðslu verði hætt. Í grein sem hann skrifar í tilefni Alþjóðadags Jarðar hvetur Guterres til þess að afgerandi ákvarðanir um kolanotkun verði teknar á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) í Glasgow í nóvember á þessu ári.

„Stærsta einstaka skrefið sem stíga þarf til að ná 1.5 gráðu markmiðinu, er að hætta smám saman rafmagnsframleiðslu með kolum.  COP26 ber að boða endalok kolanotkunar.“

Greinin fylgir í fullri lengd hér að neðan, ásamt ávarpi Guterres á Alþjóðlegum degi Jarðar.

Nú er rétti tíminn fyrir loftslagsaðgerðir

 -eftir António Guterres aðalaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Á þessu örlagaríka ári fyrir mannkynið er rétti tíminn til að grípa til djarfra aðgerða í loftslagsmálum.

Vísindin eru óhrekjanleg og njóta almennrar viðurkenningar í heiminum. Þau kveða á um að til þess að forðast óafturkræfanlegar hamfarir beri að takmarka hlýnun jarðar við 1.5 gráður á Celsius.

Til þess að svo megi verða, verðum við að ná því markmiði að engin nettó losun gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað um miðja öldina. Ríki sem bera ábyrgð á tveimur þriðju hlutum losunar hafa skuldbundið sig til þess að ná þessu marki. Þetta er afar hvetjandi, en brýnt er að hvert ríki, hver borg, hvert fyrirtæki og fjármálastofnun gangi til liðs við þetta bandalag. Hverjum fyrir sig ber að semja áþreifanlegar áætlanir um umskiptin til engrar losunar.

Enn brýnna er að ríkisstjórnir láti ekki við það sitja að setja sér langtímamarkmið, heldur grípi til raunhæfra aðgerða nú þegar. Andvirði billjóna Bandaríkjadala er varið til endurreisnar eftir COVID-19 faraldurinn. Endurreisn efnahagsins er tækifæri til að endurhanna framtíðina.

Parísarsamningurinn er ramminn

Heimurinn býr yfir ramma utan um aðgerðirnar: Parísarsamninginn. Öll aðildarríki hans hafa skuldbundið sig til að taka saman landsmarkmið um innlendar loftslagsaðgerðir og að efla þau á fimm ára fresti. Fimm árum eftir undirskrift samningsins stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að ef ekki er gripið til aðgerða nú þegar, munum við eyðileggja plánetuna okkar. Það er því kominn tími til afgerandi og skilvirkra aðgerða nú í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem hefst í Glasgow í nóvember.

Þörf krefur að losun gróðurhúsalofttegunda sé minnkuð á heimsvísu um að minnsta kosti 45% fyrir 2030, miðað við 2010, í nýju landsmarkmiðunum. Mörg ríki hafa þegar kynnt slíkar áætlanir og stefnumörkun um aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga og aukinn aðgang að endurnýjanlegri orku.

En hingað til hafa þessar áætlanir aðeins skilað 1% samdrætti í losun. Það er sannarlega hættumerki fyrir jarðarbúa og plánetuna.

Á næstu mánuðum verða ríkisstjórnir að auka metnað sinn umtalsvert. Þar er sérstaklega litið til þeirra ríkja sem mest losa og bera mesta ábyrgð á þessari kreppu. Fylgst verður sérstaklega með komandi leiðtogafundi sem Bandaríkin hafa boðað til.

Burtu með kol

Alþóðadagur Móður jarðarStærsta einstaka skrefið sem stíga þarf til að ná 1.5 gráðu markmiðinu, er að hætta smám saman rafmagnsframleiðslu með kolum. Tafarlausar aðgerðir til að fjarlægja úr orkugeiranum óhreinlegasta jarðefnaeldsneytið sem mestri mengun veldur, myndi gefa heiminum von um að hægt sé að ná árangri.

Draga verður úr hlut kola í rafmagnsframleiðslu í heiminum um 80% fyrir 2030 miðað við 2010. Þetta þýðir að þróuð ríki verða að skudlbinda sig til að hætta kolunotkun fyrir 2030 og önnur ríki fyrir 2040. Það er einfaldlega engin ástæða til að byggja ný kolaorkuver neins staðar. Rekstur þriðjungs kolageirans í heiminum er dýrari í rekstri, en sem nemur stofnkostnaði við orkuver sem nýta endurnýjanlega orku. COP26 ber að boða endalok kolanotkunar.

Styðja ber við bakið á starfsfólki

Heimurinn þokast nær því að allir njóti hreins lofts og endurnýjanlegrar orku. En það er nauðsynlegt að tryggja réttlát umskipti. Styðja verður við bakið á starfsfólki í þeim iðngreinum sem umskiptin snerta og í óformlega geiranum. Hjálpa þarf þeim að finna störf eða öðlast nýja kunnáttu. Leysa verður úr læðingi ofur-orku kvenna og stúlkna í þágu umskiptanna. Þeim ber að vera jafningjar í stjórnun og ákvarðanatöku.

Ríki sem minnsta ábyrgð bera á loftslagsbreytingum verða harðast fyrir barðinu á afleiðingum þeirra. Mörg smá eyríki munu hreinlega ekki lifa af ef við herðum ekki róðurinn. Þróuð ríki verða að standa við fyrirheit sín um að útvega andvirði 100 milljarðar Bandaríkjadala á ári til að :

  • tvöfalda núverandi fjármögnun loftslagsaðgerða;
  • verja helmingi alls loftslags-fjár til aðlögunar;
  • stöðva alþjóðlega fjármögnun kolanotkunar;
  • beina niðurgreiðslum frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegrar orku.

Fundur 7 helstu iðnríkjanna (G7) í júní gefur auðugustu ríkjum heims tækifæri til að auk metnaðinn og kynna skuldbindingar um fjármögnun og tryggja þar með árangur á COP26 loftslagsráðstefnunni.

Endurreisn eftir COVID

Alþóðadagur Móður jarðarRíkisstjórnum ber að veita forystu og þeir sem ákvarðanir taka um víða veröld hafa stóru hlutverki að gegna.

Ég fer fram á það við alla þróunarbanka, hvort heldur sem er á innlendum- eða milliríkja-vettavettvangi, að þeir setji sér skýra stefnu um fjármögnun endurreisnar eftir COVID-19. Jafnframt ber þeim að hafa á stefnuskrá sinni umskipti til þolbetra efnahagslífs í þróunarríkjum og taka tillit til sligandi skulda og álags á fjárlög einstakra ríkja.

Hlutverk unga fólksins

Margar héraðsstjórnir og einkafyrirtæki hafa skuldbundið sig til engrar nettó-losunar fyrir 2050. Þau hafa endurskoðað í grundvallaratriðum viðskiptamódel sín. Ég hvet alla til að setja sér metnaðarfull markmið og beita sér fyrir stefnumótun.

Ég hvet ungt fólk hvarvetna til þess að láta rödd sína heyrast í þágu loftslagsaðgerða, vernda lífríkið, stöðva stríðið gegn náttúrunni og efla viðleitni til að ná Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Tíminn er á þrotum og það er mikil vinna framundan, en það er ekki tímabært að veifa hvíta fánanum. Sameinuðu þjóðirnar munu fylkja liði undir bláum fána samstöðu og vonar. Á degi Jarðarinnar og á næstu mánuðum hvet ég allar þjóðir og alla jarðarbúa til að snúa bökum saman í þessu skyni.