Guterres segir sjálfbæra þróun í hættu

0
744
Guterres loftslagsmál COVID-19

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði við því að COVID-19 faraldurinn stefndi þeim árangri í hættu sem náðst hefur í sjálfbærri þróun.

„Faraldurinn er ekki aðeins heilsuvá. Sá stöðugi árangur sem náðst hefur frá aldamótum í sjálfbærri þróun er í hættu,“ sagði Guterres þegar hann ávarpaði Norðurlandaráð í dag.

Guterres hrósaði Norðurlöndum sem hann sagði „mikla vini Sameinuðu þjóðanna og stuðningsmenn fjölþjóðlegrar samvinnu og sjálfbærrar þróunar.“

Bóluefni fyrir alla

Hann sagði að fundur Norðurlandaráðs átti sér stað á tímum kreppu og óvissu. Heimurinn stæði andspænis faraldri sem hefði dregið fram í dagsljósið margs kyns veikleika í samfélögum okkar.

Guterres sagði að nokkur jákvæð teikn væru á lofti í baráttunni við faraldurinn. Alþjóðleg samvinna hefði skilað árangri í að tryggja COVID-próf í fátækari ríkjum og samvinna lofaði góðu um kaup á bóluefni. Hins vegar sagði hann að þörf væri á að afla 14 milljarða Bandaríkjadala til að fjármagna verkefnin.

„Það er afar þýðingarmikið að bóluefni sé til, standi öllum til boða og á viðráðanlegu verði … enginn er öruggur fyrr en við erum öll örugg,” sagði Guterres.

Aðgerða þörf í loftslagsmálum

Aðalframkvæmdastjórinn minnit á að loftslagsbreytingar sem hann sagði að snertu Norðurlönd sérstaklega, ykjust hröðum skrefum.

Hitamet hefðu verið slegin á Norðurskautinu á þessu ári. Það væri raunverulegur möguleikiað norðurskautið yrði íslaust á okkar æviskeiði.

Hann sagði að Sameinuðu þjóðirnar myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að efla metnaðarfullar aðgerðir í loftslagmálum. Markmiðið væri að halda hlýnun jarðar innan 1.5 gráðu á Celsius miðað við upphaf iðnbyltingar.

„Til þess að svo megi verða þurfum við að beita okkur fyrir 6 loftslagsvænum aðgerðum sem ríki og hagsmunaaðilar geta gripið til að endurreisa hagkerfið eftir COVID-19,“ bætti Guterres við.

„Það þarf að fjárfesta í sjálfbærum störfum og atvinnulífi. Tryggja að mengandi iðnaði sé ekki bjargað og binda enda á niðurgreiðslur á nýtingu jarðefna, einkum kola. Taka tillit til loftslagsáhættu í öllum fjárhagslegum ákvörðunum og stefnumótun. Að vinna í félagi að sameiginlegum málstað…Í öllum þessu atriðum treystum við á Norðurlönd.“

Norðurlönd forysturíki

„Ríki ykkar hafa sögulega verið á meðal öflugustu stuðningsmanna loftslagsaðgerða og Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Heimurinn þarf á forystu ykkar að halda meir en nokkru sinni fyrr.“

Aðalframkvæmdastjórinn hvatti ríki til að ganga frá metnaðarfyllri landsmarkmiðum innan Parísarsamningsins um loftslagsmál með góðum fyrirvara fyrir COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Þeim bæri að fela í sér kolefnisjöfnun.

„Það er von mín að félagar í Norðurlandaráði muni vera alheims-fyrirmynd um grænt og sjálfbær endurreisnarstarf í allra þágu.“

„Hvað getum við gert?“

Guterres tók þátt í umræðu Norðurlandaráðs um efnið: “Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á norrænt samstarf og hvað getum við gert til að tryggja öflugra samstarf næst þegar á reynir? Og hvernig lítur þetta út í alþjóðlegu ljósi? Hér er hægt að fylgjast með opnum umræðufundi undir yfirskriftinni „COVID-19 í norrænu og alþjóðlegu ljósi“. Einnig verður hægt að horfa á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs 2020.

Auk António Guterres voru þátttakendur Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, ásamt norrænu forsætisráðherrunum og oddvitum landsstjórnanna, þeim Mette Frederiksen, Sönnu Marin, Stefan Löfven, Ernu Solberg, Katrínu Jakobsdóttur, Kim Kielsen, Bárði á Steig Nielsen og Veronicu Thörnroos.