Guterres:  Stríðið í Úkraínu ein mesta ógn sem um getur við alþjóðlegt samstarf 

0
569
António Guterres (í miðju) ávarpar fund Öryggisráðsins 5.apríl 2022. Hægra megin er Barbara Woodward, fastafulltrúi Bretlands og forseti Öryggisráðsins í apríl. Vinstra megin er Lana Zaki Nusseibeh fastafulltrúi Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
António Guterres (í miðju) ávarpar fund Öryggisráðsins 5.apríl 2022. Hægra megin er Barbara Woodward, fastafulltrúi Bretlands og forseti Öryggisráðsins í apríl. Vinstra megin er Lana Zaki Nusseibeh fastafulltrúi Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag í ávarpi til Öryggisráðs samtakanna að vegna eðlis síns, umfangs og afleiðinga væri stríðið í Úkraínu ein mesta ógnun við alþjóðlega reglu og friðarviðleitni í heiminum frá upphafi.

„Hér er um að ræða allsherjar innrás eins aðildarríkis í annað aðildarríki,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn, António Guterres. „Innrásaraðilinn Rússland, sem á fast sæti í Öryggisráðinu, brýtur Stofnsáttmála samtakanna. Markmiðin eru margs konar, þar á meðal að flytja til alþjóðlega viðurkennd landamærri á milli tveggja ríkja.“

Guterres sagði að stríðið hefði leitt til mannfalls, hrikalegs tjóns í þéttbýli og eyðileggingar innviða.

„Ég mun aldrei gleyma hræðilegum myndum af óbreyttum borgurum sem drepnir voru í Bútsja. Ég hvatti þegar í stað til óháðrar rannsóknar til að tryggja skilvirk reikningsskil. Ég er einnig harmi sleginn yfir frásögnum af nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi.“

Martin Griffiths yfirmaður hjálparstarfs hjá Sameinuðu þjóðunum heimsækir nú Rússland og Úkraínu í því skyni að semja um vopnahlé af mannúðarástæðum.

António Guterres ræðir við Barbara Woodward, fastafulltrúa Bretlands og forseta Öryggisráðsins í apríl.
António Guterres ræðir við Barbara Woodward, fastafulltrúa Bretlands og forseta Öryggisráðsins í apríl.

Tíu milljónir manna hafa flosnað upp af völdum stríðsins á rúmum mánuði og eru annað hvort á flótta innanlands eða hafa leitað griða í nágrannaríkjum. Aldrei hafa jafnmargir orðið að flýja heimili sín á jafn skömmum tíma frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Guterres sagði það skyldu sina sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að vekja athygli Öryggisráðsisn á þeim alvarlegu afleiðingum sem stríðið hefði á hagkerfi heimsins og þá sérstaklega á þeim sem minnst mega sín og á þróunarríki.

„Stríðið hefur haft skaðleg áhrif langt út fyrir landamæri Úkraínu. Verð á matvælum, orku og áburði hefur hækkað verulega vegna þess hve Rússland og Úkraínu eru mikilvæg á þessum mörkuðum. Birgðaflutningakeðjur hafa raskast með þeim afleiðingum að flutningaskostnaður hefur hækkað sem kemur harðast niður á þróunarríkjum.“

Úttekt Sameinuðu þjóðanna bendir tl að 74 þróunarríki með 1.2 milljarða íbúa verði sérstaklega hart úti vegna hækkandi matar, orku og áburðarverðs.

„Af öllum þessum ástæðum er það sífellt mikilvægara dag frá degi að byssurnar þagni,“ sagði Guterres í ávarpi sínu á fundi Öryggisráðsins.