Guterres: Veröldin dáist að þrautseigju Úkraínubúa

0
582
António Guterres og Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu
António Guterres og Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu. Mynd: UN Photo/Eskender Debebe

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hét því í gær í Kyiv höfuðborg Úkraínu að auka stuðning við Úkraínubúa sem líða fyrir innrás Rússa í heimaland þeirra.

„Ég er kominn hingað til að kanna hvernig Sameinuðu þjóðirnar geta aukið stuðning við íbúa Úkraínu, bjargað mannslífum, dregið úr þjáningum og greitt fyrir friði,“ sagði Guterres. Skömmu eftir blaðamannafund hans og  VlodomyrZelenskyy forseta Úkraínu hæfðu tvö flugskeyti Kyiv þar sem aðalframkvæmdastjórinn og forsetinn ræddust við.

Flugskeytaárás

Blaðamannafundur António Guterres og Volodymyr Zelenskyy.
Blaðamannafundur António Guterres og Volodymyr Zelenskyy. Mynd: UN Photo/Eskender Debebe

Að minnsta kosti einn lést og nokkrir særðust og óttast er að fólk sé fast í rústum íbúðablokka í norðvesturhluta höfuðborgarinnar.

„Ég vil að Úkraínubúar viti að heimurinn fylgist með ykkur, heyrir raddir ykkar og dáist að þrautseigju ykkar og ákveðni,“ sagði Guterres.

„Ég veit vel að orð á borð við samstaða eru ekki nóg. Ég er hér til að skilgreina þarfir á staðnum og efla aðgerðir. Þessu stríði verður að ljúka og koma á friði í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög.“

„Ég er kominn hingað, hr.forseti til að segja þér og Úkraínubúum að við munum ekki gefast upp.“

Mairupol

 António Guterres skoðar verksummerki í Bútsja, nærri Kyiv.
António Guterres skoðar verksummerki í Bútsja, nærri Kyiv. Mynd: UN Photo: Eskender Debebe.

Guterres gerði sérstaklega örlög íbúa Mariupul að umtalsefni. Þúsundir manna þar komast hvorki lönd né strönd í umsátri Rússa um stáliðjuver í borginni. Hann minnti á að Pútin forseti Rússlands hefði samþykkt það grundvallarsjónarmið að Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn skipulegðu brottflutning fólksins.

„Við Zelenskyy forseti rædum þetta og viðræður eru þessa stundina í fullum gangi um að hrinda þessu í framkvæmd.“