Hægt hefði verið að forða matvælakreppunni

0
426

Skortur á langtímafjárfestingum í landbúnaði auk notkunar mikilvægra auðlinda til að framleiða hráefni í lífrænt eldsneyti hafa stuðlað að matvælakreppnnni að sögn tveggja sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna.   

Kathleen Abdalla (önnur frá vinstri) og Aslam Chaudhry (þriðji frá vinstri)

 

Kathleen Abdalla, hjá Efnahags og félagsmáladeild Sameinuðu þjóðanna (DESA) sagði á blaðamannafundi í New York að vissulega hefði orðið mannfjölgun og mataræði hefði breyst en “það hefur skort fjárfestingu í landbúnaði um langt skeið og stuðningur við landbúnað hefur verið of lítill. Það hefur sannarlega ekki verið ofarlega á baugi í þróunarsamvinnu og framleiðniaukning hefur ekki haldist í hendur við aukna eftirspurn.”  

Abdalla, yfirmaður sviðs Sjálfbærrar þróunar hjá DESA lét þessi orð falla á öðrum degi fundar nefndar SÞ um sjálfbæra þróun. Þar er til umfjöllunar hvernig auka megi matvælaframleiðslu heims og takast á við fátækt, hungur og umhverfisspjöll. Þar á meðal eru til umfjöllunar málefni landbúnaðar, landnotkun, þróun dreifbýlis, stækkun eyðimarka og þurrkar. 

Starfsbróðir hennar, Aslam Chaudhry, sem stýrir vatns og náttúruauðlindadeild DESA segir að aukin ræktun í þágu framleiðslu lífræns eldnsneytis hefði einnig stuðlað að hækkun matvælaverðs um allan heim. “Slík ræktun krefst mikils lands og vatns og því eru dýrmætar nátturuauðlindir notaðar til þessarar ræktunar.” 

“Á sama tíma er fátækt fólk í þróunarríkjunum matarlaust, en hefðu þessar náttúruauðlindir verið nýttar til að framleiða kornvöru, hefði þessi kreppa ekki brotist út,” bætti hann við.  

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynnti skipan átakshóps í síðustu viku til að takast á við hækkandi matarverð. Átakshópurinn heldur sinn fyrsta fund í New York næstkomandi mánudag undir forystu Ban. Hópinn skipa auk hans helstu oddvitar SÞ stofnana, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk sérfræðinga hvaðanæfa úr heiminum.