Landsbankinn hefur veitt VAKANDI, samtökunum sem berjast gegn sóun matvæla, umhverfisstyrk.
Styrkurinn, 500 þúsund krónur, rennur til gerðar heimildamyndar um sóun matvæla. „Talið er að hér á landi hendi landsmenn um þriðjungi þess sem keypt er inn,” segir Rakel Garðarsdóttir, forsprakki VAKANDI. „ Í Bandaríkjunum er rúmlega helmingi allra matvæla kastað í ruslið og færumst við Íslendingar hratt í þá áttina.
Áætlað er að hátt í helmingur þeirra matvæla sem eru ræktuð og framleidd endi með einum eða öðrum hætti sem sorp. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum; í ræktuninni, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og ekki síst inni á heimilum almennra neytenda.
„Í heimildamyndinni VAKANDI munum við rannsaka þetta málefni og skoða vandlega hvar mesta sóunin fer fram og hvað við getum gert til að snúa þessari þróun við. Við heimsækjum aðila á öllum stigum matvælaframleiðslunar og spyrjum krefjandi spurninga. Við ræðum við fólk úr öllum stéttum og skoðum neyslumynstur þeirra. Við gægjumst inn í fyrirtæki, heimili og rekum inn nefið á Bessastaði svo fátt eitt sé nefnt,” segir Rakel sem starfar sem framleiðandi hjá Vesturporti jafnt í leikhúsi sem kvikmyndum.
„Með hækkandi matarverði, lægri launum og hærri útgjöldum er einfaldlega galið að hugsa til þeirra peninga sem við hendum í ruslið á degi hverjum. Hillur stórmarkaðanna svigna undan mat og flestir ísskápar landsmanna eru stútfullir af matvælum sem við svo á endanum köstum í ruslið og þá helst vegna misvísandi neysludags merkingum á matvælum.
Eins og allir vita eyðir hver einstaklingur stórum hluta ævi sinnar á vinnumarkaðinum og fær fyrir það greidd laun. Stór hluti þessara launa fer í matvæli, hvort sem það er í matvöruverslunum eða á veitingahúsum. Með því að sóa mat erum við að henda peningum sem við höfum unnið okkur inn. Með því að sóa minna sparast miklir fjármunir og ekki síst tími sem hægt er að nýta og njóta í eitthvað allt annað, skemmtilegra en sorptunnurnar.
Íslendingar henda mat fyrir um 30 milljarða króna á ári. Það hljóta allir að vera sammála um það að í okkar litla samfélagi eru þær tölur hrollvekjandi.
Ekki nóg með að við hendum fjármunum, þá hefur það afar slæm áhrif á umhverfið okkar að henda mat. Við eigum eina jörð sem þolir ekki meiri sóun. Hvernig væri að gefa henni gjöf núna árið 2014 og fara að huga að henni, áður en hún tekur völdin og segir stopp.
Það er afar brýnt að breiða út boðskapinn og fá fólk til að átta sig á því hvert við stefnum. Heimildamyndaformið eru tilvalin leið til að ná augum og eyrum fólks og er það aðalástæða þess að við sjáum boðskapinn best útbreiddan í formi heimildamyndar. VAKANDI er gerð til að stöðva sóun á matvælum og vekja athygli á málefninu,” segir Rakel.