Heimurinn bíður eftir lausnum í loftslagsmálum, segir Ban Ki-moon

0
458

31. mars 2008 – Kvíðinn heimur bíður óþreyjufullur eftir varanlegum og hagkvæmum lausnum á þeim mikla vanda sem loftslagsbreytingar eru, sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi til ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hófst í dag í Bangkok.   

 Fólk vonast eftir lausn “sem byggi á sameiginlegri en mismunandi ábyrgð” og “ratar meðalveginn milli þess að finna hnattræna lausn fyrir alla og tekur tilllit til nauðsynjar þess að uppræta fátækt,” sagði Ban í ávarpi sem flutt var á myndbandi í upphafi fimm daga fundarins.  

Hann sagði um tólf hundruð fundargestum að hann hefði fullan skilning á þeirri “tröllauknu ábyrgð” sem hvíldi á herðum þeirra sem sætu nú við samningaborðið til að semja um arftaka Kyoto bókunarinnar sem rennur úr 2012. 

“En ástand jarðar okkar krefst þess að þið sýnið metnað í markmiðum ykkar og vinnusemi til að ná samkomulagi.” Framkvæmdastjórinn hvatti fundarmenn til að byggja á þeim árangri sem náðist á ráðstefnunni á Bali í Indónesíu þar sem 187 ríki samþykkti svokallaðan Bali vegvísi til að vinna bug á loftslagsbreytingum. 

Búist er við að á Bangkok fundinum verði komist að samkomulagi um vinnuáætlun í samningaviðræðum sem leiða til meiri háttar leiðtogafundar í Kaupmannahöfn 2009. Ban hefur áður lagt áherslu á að arftaki Kyoto bókunarinnar verði að vera tilbúin þremur árum áður en hún rennur út til að aðildarríkjum gefist ráðrúm til að lögfesta hann. 

Æðsti embættismaður SÞ í loftslagsmálum benti á að nú væru þrír mánuðir liðnir frá lokum Bali ráðstefnunnar.  “Það er um eitt og hálft ár til stefnu og það er mjög skammur tími til að ljúka samningaviðræðum um eitt flóknasta úrlausnarefni sem dæmi eru um í sögunni,” sagði Yvo de Boer, forstjóri stofnunar um framkvæmd Rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC).
“En ég held að þetta sé gerlegt ef verkefnið verður hlutað niður í smærri búta.”