Heimurinn þarf meira…

0
587

theworldneedsmore

Samskiptamiðlar eru orðnir snar þáttur í daglegu lífi vesturlandabúa. Fólk birtir hvaðeina um daglegt líf sitt á Facebook, lætur skoðanir í ljósi á Twitter og nýjustu myndirnar af morgunverðarborðinu á Instagram.

Hinir ýmsu samskiptamiðlar eru tæki margra til að bregða upp persónulegri mynd af sjálfum sér. Félagasamtök og vörumerki nota líka fólk til þess að gerast talsmenn fyrir verkefni eða vörur. Ljósmyndir eru ”lækaðar” og þeim ”deilt” og ”hashtag” eru notuð á Twitter og Instagram til að breiða út boðskap um allan heim.

Margir gagnrýna slíkt og spyrja sem svo: Hverjum er þetta til góðs? Bjargar það barni í Afríku ef þú ”lækar” status á facebook? Enginn borðar ”læk”!

Með herferðinni “Heimurinn þarf meira…” ætla Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra að reyna að breyta þessu og breyta “deilingum”, “lækum” og “hashtag” í peninga. Herferðin hófst á Alþjóða mannúðardaginn 19.ágúst og stendur til 24.september.

Spurt er: Hvað heldur þú að heimurinn þarfnist? Þegar svarað er á Facebook eða Twitter, verður þátttakandinn að nota “hashtag” og “merkja” þannig statusinn. Sum orð hafa stuðningsaðila. Til dæmis “sponsorerar” Gucci orðið “strength”, þannig að í hvert skipti sem orðið er notað í “hashtag” ásamt #TheWorldNeedsMore, lætur Gucci 1 dollara af hendi rakna.

Fé sem þannig safnast verður látið renna til verkefna vegna mannúðarmála sem líða fyrir fjárskort. Nú þegar hefur ein og hálf milljón manna tekið þátt og stutt 624 hjálparsamtök sem ná til 73 milljóna manna.

Nú getur þú látið gott af þér leiða! Heimsækið vefsíðuna www.worldhumanitarianday.org og finnið styrkt orð, deilið einu eða fleiri á Facebook og Twitter og þá verður fé látið renna til gleymdra fórnarlamba hörmunga í heiminum.

Þannig að : Hvað finnst ÞÉR að heimurinn þurfi meira af?