Helförin: Ban varar við gleymsku

0
623

 Auschwitz

27. janúar 2014. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við hættunni af því að gleyma Helförinni.

í grein sem birt er í dag á Alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb Helfararinnar segir Ban Ki-moon að “allt í kringum okkur séu áminningar um hættuna af því að gleyma”

Sameinuðu þjóðirnar minnast Helfararinnar 27. janúar ár hvert á afmæli frelsunar Auschwitz fangabúðanna árið 1945.

“Á þessu ári minnumst við að tveir áratugir eru liðnir frá þjóðarmorðinu í Rúanda. Átök í Sýrlandi, Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu hafa tekið á sig hættulega mynd skæra á milli ólíkra samfélagshópa. Fordómar eru enn við lífi í þjóðfélögum okkar og stjórnmálum. Heimurinn getur og verður að gera emira til þess að uppræta eitrið sem leiddi til fangabúðanna, “ skrifar framkvæmdastjórinn í grein sem ber heitið: “Heimsókn til Auschwitz.”

“Mér var hugsað til fanganna sem stóðu naktir klukkustundum saman í fimbulkulda, rifnir úr faðmi fjölskyldna sinna og rúnir hári áður en þeir voru þvingaðir í gasklefana. Ég hugsaði um þá sem sem fengu að lifa einungis til þess að vera þrælkað til dauða. Umfram allt hugleiddi ég hversu geigvænleg Helförin er enn þann dag í dag. Grimmdin var svo djúpstæð; umfangið svo mikið; heimssýn Nasismans svo skökk og ofstækisfull og drápin svo skipulögð og úthugsuð,” skrifar Ban.

Framkvæmdastjórinn heimsótti Auschwitz-Birkenau, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO í nóvember síðastliðnum.

Helfararinnar er minnst í Höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og víðar á vegum samtakanna og er kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg, aðalræðumaður. Stofnun hans, the Shoah Institute for Visual History and Education, hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að geyma frásagnir eftirlifenda.

“Örfáum skrefum frá brennsluofnunum í Auschwitz, gaf ég mér tíma til hugleiðingar…Von mín er sú að okkar og komandi kynslóðum beri gæfa til þess að gera það að sameiginlegu markmiði að hindra að slíkur hryllingur endurtaki sig hvar sem er, og hver sem eigi í hlut, hópar eða einstaklingar og byggi heim þar sem jafnræði er haft að leiðarljósi,” skrifar Ban Ki-moon.

Sjá nánar:

Ávarp framkvæmdastjórans (myndband): http://vimeo.com/85053314

Alþjóðlegur minningardagur um Helförina: http://www.un.org/en/holocaustremembrance/

Um þjóðarmorð: http://unric.org/html/english/library/backgrounders/genocide_eng.pdf

Um kynþáttahatur: http://unric.org/html/english/library/backgrounders/racism_eng.pdf

Um kynningarátak Sameinuðu þjóðanna um helförina: http://www.un.org/en/holocaustremembrance/bg.shtml

Um heimsókn Ban Ki-moon til Auschwitz:http://unric.org/en/latest-un-buzz/28854-haunting-silence-at-former-nazi-death-camp og