Hinar raunverulegu Sameinuðu þjóðir láta verkin tala Eftir Ban Ki-moon

0
458

Gagnrýnendur kalla Sameinuðu þjóðirnar oft “kjaftaklúbb,” og segja að í þessum hundrað níutíu og tveggja ríkja samtökum sé “ekkert málefni of smátt til að ræða endalaust.”

 


Ban ræðir við fórnarlömb náttúruhamfara í Myanmar

En hinar raunverulegu Sameinuðu þjóðir, sem á stundum eru ósýnilegar almenningi, takastd á við áþreifanlega hluti. Þær brauðfæða níutíu milljónir manna í meir en sjötíu ríkjum. Þetta snýst oft og tíðum um að forða hungruðu fólki frá því að svelta til bana. Sameinuðu þjóðirnar hafa útrýmt sjúkdómum á borð við bólusótt og lömunarveiki og bólusetja fjörutíu prósent allra barna í heiminum. Á hverju ári veita samtökin tveimur milljörðum Bandaríkjadala í neyðaraðstoð til fórnarlamba hamfara. Þær halda úti næstfjölmennasta her í heimi en nú eru 120 þúsund karlar og konur í friðargæslusveitum undir merkjum samtakanna. Þetta hugrakka fólk fer þangað sem aðrir annað hvort vilja ekki fara eða geta ekki farið. 

Á ferðum mínum um heiminn, ber mig oft niður á ýmsa af hættulegustu stöðum heims. Ég reyni alltaf að hitta andlitin á bakvið slíkar staðreyndir og tölur sem ég hef nefnt hér á undan. Á kvikmyndahátíð í Jackson Hole í Wyoming í Bandaríkjunum kynnti ég fólk af þessu tagi fyrir handritshöfundum og kvikmyndaleikstjórum í Hollywood sem vildu kynna sér Sameinuðu þjóðirnar.   

Ein þeirra var kanadísk kona sem vinnur fyrir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sem er helguð vernd, velferð og réttindum barna um allan heim. Hún heitir Pernille Ironside. Starf hennar er að fara ein fyrir fámennum hópi um torfærur austurhluta Lýðveldisins Kongó. Þar stendur hún upp í hárinu á stríðsherrum og reynir að telja þá á að sleppa “barnahermönnum” úr klóm sínum. Þetta eru drengir og stundum stúlkur sem hefur verið rænt eða þvínguð til, stundum aðeins átta til tíu ára gömlum, að berjast með skæruliðum. Oftar en ekki tekst henni ætlunarverk sitt. Undanfarin ár hefur sveit Sameinuðu þjóðanna í Kongó tekist að frelsa þrjátíu og tvö þúsund barnahermenn af alls þrjátíu og fimm þúsund. Pernille vonast til þess að ljúka verkinu fyrir lok þessa árs. 

Önnur var Kathi Austen, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í vopnasmygli. Hún hefur undanfarin ár rakið spor ólöglegra vopnasmyglara í Lýðveldinu Kongó og fleiri átakasvæðum um alla Afríku. Að hluta til fyrir hennar tilverknað var einn illræmdasti vopnasmyglari heims Viktor Bout handtekinn í Tælandi, sakaður um þátttöku í hryðjuverkum.  

Ishmael Beah sem starfar á vegum UNICEF að málefnum barna sem þjást af völdum styrjalda, sagði frá lífi sínu sem barnahermanni í Sierra Leone. Þökk sé endurhæfingar áætlun Sameinuðu þjóðanna, lifði hann ekki bara af heldur náði sér á strik. Hann komst um síðir til Bandaríkjanna þar sem hann settist á skólabekk í Oberlin College og skrifaði metsölubók um reynslu sína.

Ung kona frá Sierra Leone, Mariatu Kamara, sagði einnig sögu sína. Hún var tólf ára þegar uppreisnarmenn myrtu foreldra hennar og hjuggu af henni hendurnar eins og tíðkaðist að gera við börn í borgarastríðinu í heimalandi hennar. Hún lifði einnig af með aðstoð Sameinuðu þjóðanna. Hún býr nú með fósturfjölskyldu sinni í Toronto í Kanada og sækir skóla. Hún snýr heim með jöfnu millibili til að segja sögu sína og til að vekja athygli á starfi UNICEF um víða veröld. 

Í starfi mínu sé ég mörg önnur andlit þessara raunverulegu Sameinuðu þjóða sem njóta ekki sömu frægðar en vinna ekki síður gott og óeigingjarnt starf. Vissulega eru mörg af okkar mikilvægustu verkum, jafnframt á meðal hinna minnst sýnilegu. 

Ég heimsótti liðsmenn Sameinuðu þjóðanna í Líberíu í heimsókn minni til Vestur-Afríku nú í vor. Þar vinna þeir með stjórn landsins að því að endurreisa einföldustu opinbera þjónustu eftir áralanga borgarastyrjöld: rafmagn, vatn, hreinlæti, skóla. Á Fílabeinsströndinni hitti ég ráðgjafa Sameinuðu þjóðanna sem liðsinna þjóð sem klofin var í átökum, í því að halda kosningar og koma á fót sönnu og varanlegu lýðræði. 

Í Burkina Faso, rétt sunnan við Sahara eyðimörkina sem sífellt sækir fram, hafa Sameinuðu þjóðirnar útvegað rafmagnslausum afskekktum þorpum rafstöðvar. Þær knýja vélar sem mala korn,  draga úr hungri og hlaða farsíma sem gera bændum kleift að vera í tengslum við markaði í nágrenninu. Með því móti geta þeir ákveðið hvað þeir rækta og hvenær.. Oftast eru þessi smáfyrirtæki rekin af samyrkjubúum kvenna sem efla áhrif þeirra og valdastöðu í samfélögum þeirra. Með smáum skrefum af þessu tagi, breytum við heiminum.

Ég ólst upp sem fátækastur allra í litlu stríðshrjáðu þorpi Kóreu sem lagt hafði verið í auðn í Kóreustríðinu. Oft vissum við í fjölskyldu minni ekki hvar við fengjum næstu máltíð. Ég velti því oft fyrir mér hvernig ég öðlaðist þau forréttindi að fá að vera hluti af þessari göfugu stofnun.

Þegar talað er um kjaftaklúbbinn við Skjaldbökuflóa, þar sem höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eru, skulum við ekki gleyma því að það skilar líka oft árangri að ræða málin.

Það er í kjölfar umræðna sem friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa tekið sér stöðu í átján ríkjum á fjórum meginlöndum. Það er með viðræðum sem aflað er fjár og umboðs til að brauðfæða svo marga sem raun ber vitni í hinum hungraða heimi. Orð eru líka til alls fyrst þegar fyrstu skrefin eru stigin til að takast á við loftslagsbreytingar, matvælakreppuna og mannúðarvanda af ýmsum toga um allan heim.

Sameinuðu þjóðirnar hafa fylkingarmáttinn sem stórveldi mjúku málanna í heiminum. Hinar raunverulegu Sameinuðu þjóðir láta verkin tala. 

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.