Hinsegin fólk í skotlínu nýs kalds stríðs?

0
402

 

Europride

28.júní 2014. Mannréttindi hinsegin fólks hafa um skeið verið bitbein á alþjóða vettvangi.

Deilur um málefni hinsegin fólks (hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir og transfólk) verða sífellt harðari. Sum ríki eins og Norðurlöndin leggja áherslu á að auka réttindi hinsegin fólks, en önnur rísa upp öndverð gegn málflutningi þeirra í nafni „hefðbundinna gilda“.

Á Europride í Osló í vikunni lýstu mannréttindaforkólfar frá Austur-Evrópuríkjum áhyggjum sínum af því að málefni hinsegin fólks hefðu hafnað í skotlínu í nýju köldu stríði milli fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna og Vesturlanda. „Hvernig höfðar þú til kjósenda í landi sem glímir við pólítíska og efnahaslega kreppu auk minnkandi fæðingatíðni?“ spyr Olena Shevchenko, úkraínsk baráttukona fyrir mannréttindum. „Jú, þau búa óvin fólksins. Leiðtogar fyrrverandi Sovétríkja hafa þróað and-evrópskan og and-vestrænan málflutning sem er samofinn andúð á hinseginfólki og það útmálað sem ógn við öryggi þjóðarinnar. Samheldni þjóðarinnar er sögð háð því að hlúð sé að efðbundnum gildum sem byggja á kjarnafjölskyldunni og gömlum kynhlutverkum. Öll viðleitni til að efla réttindi hinsegin fólks er túlkuð sem vestrænn undiróður í því skyni að stuðla að upplausn þjóðarinnar.“

Norska fræðikonan Ingrid Vik, höfundur skýrslu um virkni kristinna þrýstihópa innan Sameinuðu þjóðanna, tekur undir þetta. „Trúarlegir- og íhaldshópar hafa unnið af krafti gegn réttindum kynferðislegra minnihlutahópa á alþjóðlegum vettvangi. Á Mannfjöldaráðstefnunni í Kaíró fyrir 20 árum var hugtakið „hefðbundin fjölskylda,“ notað á kerfisbundin hátt af ýmsum arabískum og afrískum ríkjum auk Bandaríkjanna og Páfastóls. Nú hafa Austur-Evrópuríki bættst í hópinn.“

Rússland hefur skorið sig úr á undanförnum árum. Rússneska þingið (Dúman) hefur samþykkt nokkur lagafrumvörp sem grafa undan mannréttindum hinsegin fólks, þar á meðal lögin gegn áróðri sem bannar alla jákvæða umfjöllun um það á opinberum vettvangi. Rússneska konan Polina Andrianova telur að lögin hafi stuðlað að því að útmála hinsegin fólk sem óvini þjóðarinnar. Að auki hafi það tekist með lagasetningunni að beina athyglinni frá raunverulegum vandamálum landsins.

Anastasia Danilova frá Moldavíu, segir að bæði helstu stjórnmálaöfl landsins (Bandalag um evrópska samvinnu) sem hefur meirihluta á þingi og stærsta stjórnarandstöðuaflið, Marx-Lenínistar, hafi málefni hinseginfólks á stefnuskrá sinni. Stjórnarandstaðan og Rétttrúnaðarkirkjan sem fylgja Rússum að málum hafa tekið höndum saman um „hefðbundin gildi.“ En á sama tíma, segir hún, hafa fylgismenn evrópskrar samvinnu leikið tveimur skjöldum. „Á alþjóðlegum vettvangi prédikar þeir lýðræði og jafnrétti. En heima fyrir heyrir maður opinskáan hatursáróður hjá sömu stjórnmálamönnum gegn hinsegin fólki.“

Síðasta ársskýrsla baráttusamtakanna Equality for LGBTI people in Europe (ILGA Europe) slær því föstu að aðild að Evrópusambandinu tryggi ekki endilega réttindi hinsegin fólks. Svör við könnun í Lettlandi, sem hýsir Europride á næsta ári, bendir til þess að almenningur teldi það „mjög óþægilegt“ ef stjórnmálamaður úr röðum hinsegin fólks kæmist til æðstu pólitískra metorða. Lettneski panelmeðlimurinn Kaspars Zalitis staðfestir þetta. „Við elskum að benda á vandann í öðrum ríkjum í stað þess að taka til í eigin ranni. Eins og staðan er í dag eiga margs konar mannréttindabrot sér stað í ESB-ríkjunum. Hvað hinsegin fólk varðar er mjög aftarlega á merinni innan ESB.“

Sameinuðu þjóðirnar hvetja öll aðildarríki til þess að viðurkenna í verki að mannréttindi tilheyra öllu fólki, án tillits til kynhneigðar eða kynímyndar. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri samtakanna hefur ítrekað lagt áherslu á nauðsyn þess að sýna samstöðu með hinsegin fólki sem verður fyrir barðinu á mismunun, þar á meðal í herferðinni Free & Equal.

Fylgist með Free & equal á Facebook og Twitter.