HIV og alnæmi á undanhaldi

0
481
alt

Alnæmisfararaldurinn er á undanhaldi og nýjum HIV-smitum er farið að fækka. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Alnæmisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNAIDS, sem kynnt var í dag 23. nóvember.

alt

Nýjum HIV smituðum hefur fækkað um 20% á síðustu tíu árum. Dauðsföllum tengdum alnæmi hefur fækkað um 20% á síðustu fimm árum og heildarfjöldi HIV smitaðra í heiminum er nú í jafnvægi.

 

 

Fjöldi nýrra HIV smita hefur ýmist fækkað eða er í jafnvægi í, að minnsta kosti, 56 ríkjum í heiminum.

Tölur úr 2010 UNAIDS skýrslunni sýna að 2.6 milljónir manna hafa smitast af HIV sem er nærri 20% færri en smituðust árið 1999, en þá var fjöldinn 3.1 milljón.
Árið 2009, lést 1.8 milljón manna úr Alnæmistengdum sjúkdómum sem er nærri fimmtungi færri en árið 2004 þegar 2.1 milljón manna lést.

Í árslok 2009 er talið að 33.3 milljónir hafi verið HIV smitaðar sem er heldur meira en 2008 þegar talan var 32.8 milljónir. Þetta skýrist að hluta til af auknum fjölda sem lifir lengur eftir því sem aðgangur að lyfjum batnar.

“Okkur er að takast að snúa þróuninni við í glímunni við Alnæmis faraldurinn með ákveðnum aðgerðum og góðum ákvörðunum, ” segir Michel Sidibé, forstjóri UNAIDS. ”Fjárfestingar í vörnum gegn Alnæmi eru að borga sig, en ávinningurinn er brothættur. Áskorunin sem nú blasir við er að vinna í sameiningu að því að hraða þróuninni.”