Hjálparstarf lamast vegna eldsneytisskorts

0
13
Tjaldbúðir fyrir uppflosnað fólk í Khan Yonis í suðurhluta Gasasvæðisins
Tjaldbúðir fyrir uppflosnað fólk í Khan Yonis í suðurhluta Gasasvæðisins. Mynd: WHO.

Gasasvæðið. Eldsneytisskortur ógnar öllu mannúðarstarfi á Gasasvæðinu. Skolp flæðir nú um götur, að því er yfirmaður Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA) skýrði frá í dag 16.nóvember.

Yfirmaðurinn, Philippe Lazzarini, ítrekaði að koma yrði á vopnahléi og vísaði á bug falsfréttum um starf stofnunarinnar, þar á meðal að hjálpargögn hefðu lent í röngum höndum.

Mannúðaraðstoð í hættu

Fjarskipti á Gasa líða fyrir eldsneytisskort og allt starf UNRWA er við að leggjast af. Stofnunin leikur algjöru lykilhlutverki í lífi 2.2 milljóna manna á Gasasvæðinu. UNRWA kemur mannúðaraðstoð til skila, sér um vatnsveitu og meira að segja hraðbanka. Lazzarini sagðist sannfærður um að verið væri að reyna að hindra starf UNRWA.

Skólar UNRWA hafa skotið skjólshúsi yfir 800 þúsund manns og er vist þeirra afar ill vegna matar- og vatnsskorts og afleitrar salernis- og hreinlætisaðstöðu. Allt að 40% fólksins er komið með útbrot á hörundi.

Öryggisráðið samþykktu sína fyrstu ályktun um Gasa frá 7. október.
Öryggisráðið samþykktu sína fyrstu ályktun um Gasa frá 7. október. Mynd: UN Photo/ Loey Felipe

Öryggisráðið samþykkir ályktun

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær ályktun í fyrsta skipti frá því átök blossuðu upp að nýju 7. Október Þar er hvatt til „brýns og langvarandi hlés á átökum í mannúðarskyni,“ á Gasasvæðinu í „nægilega marga daga“ til að leyfa fullan aðgang stofnana Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila þeirra að svæðinu.  Þá hvatti ráðið til tafarlausrar lausnar gísla í haldi Hamas.

Tólf ríki greiddu atkvæði með ályktuninni, en Bandaríkin, Bretland og Rússland sátu hjá.

103 starfsmenn SÞ hafa látist

103 starfsmenn UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hafa látist á Gasasvæðinu frá 7.október.  Lazzarini svaraði á blaðamannafundi ásökunum í garð UNRWA. Hann sagði fráleitt að hatursáróður þrifist í kennslu, enginn hatursáróður leyfðist, hvað þá kynþáttahatur eða hvatning til mismununar eða ofbeldis.

 „UNRWA hafnar því að starfsfólk eða skólar hafi tengst hinum hræðilegu árásum á Ísrael 7.október sem UNRWA hefur fordæmt og ég mun halda áfram að fordæma,“ sagði hann.

Hann minnti á að ísraelskum stjórnvöldum væri afhentur listi yfir starfsfólk á hverju ári. „Í raun og veru sæta fáar stofnanir jafn miklum eftirliti,“ sagði Lazzarini.