Hnattvæðum hið íslenska heilabú

0
452

braIN

30.janúar 2015. Sjálfbær þróunarmarkmið og Loftslagssáttmáli verða höfuðúrlausnarefnin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á þessu ári þegar þess er minnst að sjötíu ár eru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna.

Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd ávarpaði hátíð í Háskóla Íslands 27.janúar í tilefni af sjötugsafmæli Sameinuðu þjóðanna og upphaf árs ljóssins. 

Við Íslendingar höfum haft það orð á okkur fyrir að vera heldur sjálfhverf þjóð.  Sú saga er sögð að á níunda áratug síðustu aldar, þegar Bretar og Argentínumenn börðust um yfirráð yfir Falklandseyjum, hafi sundlaugargestur spurt útlending sem heiðraði heita pottinn í Vesturbæjarlauginni með nærveru sinni, að því hvaðan hann væri.  Útlendingurinn sagðist stoltur vera einn þeirra þrjú þúsund sála sem byggðu Falklandseyjar – eyjarnar sem tröllriðu þá heimsfréttum. Íslendingurinn lét sér fátt um finnast og spurði: “How do you like Iceland? “

AuswchwitzFriður kemur okkur við

Stundum látum við Íslendingar eins og umheimurinn komi okkur álíka mikið við og ástandið á reikstjörnunni Mars. Einn þekktasti stjórnmálaskýrandi Íslands til margra ára gekk meira að segja svo langt alls fyrir löngu að friður í Evrópu kæmi Íslandi ekki við.
Ég held ekki að þessi orð hafi verið látin falla að athugðu máli. Dæmin sanna að ekki aðeins friður í Evrópu, heldur friður í heiminum kemur Íslandi við, annars værum við auðvitað hvorki í NATO né Sameinuðu þjóðunum.
Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til þessa að koma í veg fyrir að heimsstyrjaldirnar tvær yrðu fleiri og sama má segja um Evrópusambandið.
Og í dag minnumst við þess að 70 ár eru liðin frá því Rauði herinn frelsaði síðustu fangana í útrýmingarbúðunum í Auschwitz úr klóm þýskra nasista.
Ef friður í Evrópu kemur okkur ekki við, átti okkur þá að standa á sama um örlög gyðinga?

Týr bjargaði Sýrlendingum

Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu en er samt eitt af aðeins átta ríkjum sem sent hafa skip til að taka þátt í nýju verkefni Ítala á vegum Frontex-Landamærastofnunar ESB á Miðjarðarhafi.Framganga áhafnar Týs hefur vakið verðskuldaða athygli en talið er að hátt í 2 þúsund manns hafi verið bjargaði í fjórum björgunaraðgerðum.landhelgi

Minni athygli hefur vakið hverjum var bjargað en þetta voru að mestu leyti sýrlenskir flóttamenn. Þrjár milljónir, sjö hundruð tuttugu og fimm þúsund manns hafa flúið Sýrland. Aðeins hundrað og fimmtíu þúsund þeirra hafa fundið griðastað í Evrópu. A sama tíma hafa mun fátækari nágrannaríki orðið að bera miklar byrðar. Tölurnar tala sínu máli:

Líbanon hýsir nú eina milljón og hundrað sextíu og sex þúsund sýrlenska flóttamenn.
Ef Ísland ætti að taka á móti hlufallslega jafn mörgum flóttamönnum og Líbanon miðað við íbúafjölda, yrðu þeir 90 þúsund.
Myndum við sýna slíka gestrisni gagnvart illa stöddum nágrönnum okkar? Stæðum við undir því?
En þetta eru ekki einu afrek íslenskra skipa á Miðjarðarhafinu, því árið 2007 bjargaði Eyborg frá Hrísey flóttamönnum sem höfðu komist á flotkví sem skipið var að draga frá Líbýu.

DarfurFólkið var meðal annars frá Darfur-héraði í Súdan, en þar geysa átök sem að margra áliti má rekja til loftslagsbreytinga og átaka hirðingja og bænda um minnkandi vatnsból.
Bein merki um hlýnun jarðar og sjávar sjást líka á Íslandi. Lundinn, einkennisfugl Vestmannaeyja kemur ekki upp ungviðinu, pysjunni, vegna þess að makríllinn berst við hann um ætið; makríllinn sem aldrei áður lét sjá sig svo norðarlega. Þarf þorskurinn að flýja hlýnandi sjó til að við rönkum við okkur? puffin
Eins og fram hefur komið er árið 2015 mikilvægt ár í heiminum og þá á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri samtakanna hefur kallað eftir hnattrænum aðgerðum fyrir jarðkringluna og fólkið sem hana byggir.

Vinnum bug á fátækt og hungri

Fyrst skulum nefnd hin svokölluðu sjálfbæru þróunarmarkmið sem samþykkja á í haust. Eins og í Þúsaldarmarkmiðunum um þróun sem þau leysa af hólmi, eru aðalatriðin sem fyrr að vinna á fátæk og hungri í heiminum.
En það stendur ekki til að eyða þorpinu til að frelsa það, svo snúið sé út úr orðum bandarísks herforingja í Víetnamsríðinu. Það væri til lítils að eyða fátækt ef við grönduðum jörðinni á sama tíma með ósjálfbærum lifnaðarháttum.

globalforumonoceans oceanleadership-org Sjálfbærni er samofin Nýju þróunarmarkmiðinum. Annar grundvallarmunur á nýju markmiðunum og þúsaldarmarkmiðunum er sá að þau gilda fyrir öll lönd heims, þar á meðal Ísland.
Eitt markmiðanna sautján sem snertir okkur Íslendinga hvað mest snýst um verndun og sjálfbæra nýtingu hafsins.
Önnur róttæk breyting er sú að friður og góðir stjórnarhættir og réttarríki eru þróunarmarkmið.3e4a81fe-bd51-4975-8635-8ebcff15adbd
Einræðisherrar jafnt í Túnis sem Sýrlandi gátu vitnað til talna sem sýndu framfarir á afmörkuðum sviðum þróunar. En almenning stóð á sama um tölfræði og arabíska vorið braust út. Auðnum var misskipt og skapaði ekki atvinnu, almenningur var beittur ofríki og flokksgæðingar sátu einir að kjötkötlunum á sama tíma og réttarríkið og mannréttindi voru fótum troðið.

Þróun dýr?

droughtEn nú er spurt hefur heimurinn efni á þróun á þessum síðustu og verstu krepputímum?
Þegar best lét á Íslandi áttu 4 milljarðar að renna til þróunarsamvinnu. Hvort þetta er mikið eða lítið skal ósagt látið en um svipað leyti voru sagðar fréttir af því að gróði af veiðum eins íslensks fyrirtækis undan Afríkuströndum hefði verið jafnmikill eða 4 milljarðar.

Góðir Íslendingar það var hér í þessum sal að viðstöddum Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra tilkynnti að Ísland hefði fyrst ríkja fullgilt Vopnaviðskiptasáttmálann. 

Á hverjum degi er nærri 4.8 milljörðum Bandaríkjadala eytt í vígbúnað en á sama tíma er kostnaður við Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna 8 milljarðar dala á ári. Með öðrum orðum er eytt jafngildi árlegum útgjöldum friðargæslunnar á hverjum fjörutíu tímum eða innan við tveimur sólarhringum. Peace
Árið 2015, sjötugsafmælis ár Sameinuðu þjóðanna heilsar með tröllauknum áskorunum; ófriður geisar víða, heimskreppunni er varla lokið og á sama tíma á að ganga frá Sjálfbærum þróunarmarkmiðum og Loftslagssáttmálanum á ráðstefnu í París í lok ársins.

Hlýnun jarðar dýrkeypt

Climate-ChangeLoftslagsbreytingar eru líka sjálfbært þróunarmarkmið. Þar hefur Ísland verk að vinna – útflutningur á tækni og kennsla í að beisla jarðhita er lofsvert framlag Íslands en ótrúlegt, en satt líka að hætta að sóa matvælum.
Útblástur gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu matvæla sem er hent í heiminum, slagar hátt upp í losun Bandaríkjanna og Kína.
Markmiðið á Loftslagsráðstefnunni er að semja um minnkun útblásturs lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum og hlýnun jarðar, þannig að hún verði ekki meir en 2 gráður að meðaltali. Annars gæti hún orðið 3, 4, 5 jafnvel 6 gráður og því meiri því nær sem dregur heimsskautunum.
Við veiðum ekki þorsk við Ísland við þær aðstæður.

En jafnvel þó við værum svo skammsýn að horfa einungis til þorskveiða við eina litla eyju lengst norður í Ballarhafi, myndu afleiðingar loftslagsbreytinga annars staðar verða slíkar að það myndi engu skipta þegar upp væri staðið.  Ein skuggalegra afleiðinga væri sú að fólk á suðurhveli jarðar myndi missa lífsviðurværi sitt, ýmist af völdum hita, þurrka eða öfgakennds veðurfars í og flýja norður á bóginn
Sjálfbæru þróunarmarkmiðin og sáttmálinn um loftslagbreytingar eru tvær hliðar á sama pening.

Nýr múr?image18 2294

Í raun eigum við þá kosti eina að reyna að berjast gegn loftslagsbreytingum og stuðla að sjálfbærri þróun, eða byggja múra utan um hinn vestræna heim. Fyrir skemmstu minntumst við þess að 25 ár voru liðin frá hruni Berlínarmúrsins, en nú gætum við staðið frammi fyrir því að gerast arftakar landmæravarðanna austur þýsku til að að útiloka fólk sem flýr loftslagsbreytingar eða fátækt, ofsóknir eða styrjaldir.

2506993864 8bc2386d8e zÁ tímum frelsis og hnattvæðingar megum heldur ekki múra heilann í okkur inni og halda að meira að segja friður í Evrópu komi okkur ekki við. Eins og Ronald Reagan sagði árið 1987 í ræðu við Berlínarmúrinn þegar hann ávarpið Gorbatsjov, aðalritara: Rjúfum þennan múr.
Nú rúmum 25 árum seinna bæti ég við rjúfum líka okkar innri múr. Seðlaveski okkar okkar eru löngu orðin alþjóðavædd en það er kominn tími til að við hnattvæðum heilabú okkar og hættum að líta á umheiminn eins og reikisstjörnuna Mars.
Það er verk að vinna fyrir Íslendinga og eins og utanríkisráðherra sýndi á fram á nýverið á rakarastofunni í New York, höfum við Íslendingar margt fram að færa í alþjóðlegu samhengi – á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða.

(skoðanir eru höfundar en ekki þeirra samtaka sem hann starfar hjá, einni birt í Kvennablaðinu 29.janúar 2015) 

Mynd af Berlínarmúrnum 1963 : Roger  Attribution-ShareAlike 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0) Mynd af heila Matthew Purdy  Attribution-ShareAlike 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0)