Hver horfinn jökull er minnisvarði um aðgerðarleysi

0
789
Jöklamyndir Ólafs Elíassonar
Olafur Eliasson The glacier melt series 1999/2019, 2019l. © 2019 Olafur Eliasson Photo: Michael Waldrep/Studio Olafur Eliasson

Íslensk-danski listamaðurinn heimskunni Ólafur Elíasson beitir örlögum íslenskra jökla fyrir sig í kröftugu, listrænu ákalli til leiðtoga heimsins um að grípa til aðgerða í loftslagsmálum.

Ólafur varð fyrr á þessu ári loftslagssendiherra Þróunastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Í bloggi á heimasíðu hennar segir hann frá íslensku jöklunum sem hann eitt sinn taldi elífa. Í nýjasta verki sínu leitaði Ólafur uppi jökla sem hann myndaði fyrir tuttugu árum úr lofti og stillir upp myndum sem hann tók síðastliðið sumar við hliðina á.

Ólafur er af íslensku bergi brotinn en flutti með fjölskyldu sinni til Danmerkur ungur að árum. Hann þekkti þó jöklana af eigin raun.

Jöklarnir elífu

„Þegar ég var barn og ungur maður þá fannst mér íslensk náttúra sjálfsagður hlutur. Hún var aðskilin frá þeim heimi sem ég ólst upp í á danskri grundu. Náttúran var íslensk en menningin dönsk,” skrifar Ólafur í bloggi sínu. Jöklarnir voru handan áhrifa mannsins, stórkostlegir, óhagganlegir og eilífir.

Árið 1999, tók Ólafur Elíasson loftmyndir af íslenskum jöklum.

„Á þeim tíma hirti ég ekki um að skrifa niður hnit eða hæð vélarinnar þegar ég tók myndirnar. Ég var ekkert að hugsa um að snúa aftur og reyndar voru umhverfismál mér ekki ofarlega í huga.”

Tuttugu árum síðar snéri hann aftur og lagði sig í líma við að taka myndir frá nokkurn veginn sama sjónarhorni og úr sömu fjarlægð.

“Ég setti myndirnar frá 1999 og 2019 hlið við hlið í nýju listaerki “Ísbráðnunar-seríunni 1999/2019 ( “The glacier melt series 1999/2019,”). Þar er leitast við að bera vitni um þær miklu breytingar sem ég var ekki búinn undir. Allir jöklarnir hafa hopað og suma er erfitt að finn.a Þegar myndirnar eru bornar saman verða áhrif mannsins á umhverfið sárgrætileg og áþreifanleg.”

Okið horfna

Og raunar er einn íslenskur jökull horfinn með öllum. Ólafur tók þátt í minningarathöfn í ágúst síðastliðinum um Ok sem missti sæmdarheitið jökull 2014.

Ólafur segir að hann vonist til að myndir hans muni „verða lóð á vogarskálarnar til þess að gripið verði jafn hratt og af þeim krafti sem nauðsynlegur er til þess að við þurfum ekki að harma örlög jökla heldur geti komandi kynslóðir fagnað áframhaldandi tilvist þeirra. Hver jökull sem tapast er minnisvarði um aðgerðarleysi okkar. Hver jökull sem bjargað er verður bautasteinn um aðgerðir okkar andspænis loftslagsvánni. Alþjóðasamfélaginu ber að bregðast við nú þegar,“ segir Ólafur Elíasson.