Hver stórhvalur er milljón dollara virði

0
809

Hvalir eru þekktir sem stærstu og gáfuðustu sjávardýrin. Nú hafa sjávarlíffræðingar komist að því að þeir fangi einnig mörg tonn af kolefni úr andrúmsloftinu. Sérfræðingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) hafa reiknað út að efnahagslegt virði þessar þjónustu stórhvala sé andvirði trilljónar- milljón milljóna Bandaríkjadala.

Hvalir hafa verið veiddir í hundruð ára vegna beina, olíu og kjöts. Elstu heimildir um hvalveiðar í atvinnuskyni eru frá því um árið þúsund. Frá þeim tíma hafa milljónir hvala verið drepnir. Sérfræðingar telja að hvalastofnar hafi minnkað um 66% til 90%.


„Hvalir geta fangað ótrúlega mikið af kolefni,“ segir í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þar sem farið er í saumana á kolefnis-föngun hvala. „Íhaldssamt mat okkar er að virði hvers meðal stórhvelis, að öllu samanlögðu, nemi tveimur milljónum Bandaríkjadala. Það þýðir að virði allra stórhvalastofna sé yfir ein trilljón Bandaríkjadala.“

Hvalir fanga koltvísýring

Hvalir safna kolefni í líkömum sínum má langri ævi sinni, en sumir geta orðið 200 ára gamlir. Þegar þeir deyja sökkva þeir til botns og taka kolefnið með sér. Samkvæmt rannsóknum fanga þeir að meðaltali um 33 tonn af koltvísýringi með þessum hætti. Tré fangar aðeins 3%  af því sem hver hvalur fangar á sama tíma.

Rannsókn frá 2010 bendir til að áður en atvinnuveiðar hófust hafi hvalastofnar sökkt 190 þúsund til 190 milljónum tonna af kolvtísýringi á ári. Þegar hvalir eru veiddir eru bolir þeirra nýttir og sökkva því ekki til botns. Þess í stað eru líkamsleifar þeirra unnar og koltvísýringur losaður út í andrúmsloftið við vinnsluna.

Loftslagsvænn saur

Hvalir eru ekki aðeins mikils virði þegar þeir deyja og sökkva til botns. Saur hvalanna er líka loftslagsvænn.

Hvalir nærast í hafdjúpum og þyrla upp yfirborðinu þegar koma upp til að anda og losa sig við saur. Járnríkur saurinn skapar kjöraðstæður fyrir vöxt svifþörunga.

Þessar örverur hafa veruleg áhrif á andrúmsloftið því þær fanga um það bil 40% alls koltvísýrings sem verður til. Þetta er fjórum sinnum meira en regnskógur Amazon fangar.

Vicki Hames sérfræðingur hjá breskum Hvala og höfrungaverndarsamtökum segir í grein á vef BBC 

„Hvalveiðar eru harmleikur sem hafa fjarlægt úr hafinu náttúrulega kolvetnis-dælu og þar með dregið úr sviþörungaframleiðslu og möguleika hafsins til að fanga koltvísýring.“

„Niðurstöðurnar í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sýna fram á magnað samspil minnstu og stærstu tegunda lífs á plánetunni okkar. Það er þýðingarmikið að skilja margslungin tengsl ekki aðeins vegna eiginlegs gildis, heldur ekki síður vegna þess mikilvæga hlutverks sem náttúran leikur í að halda okkur á líf,“ segir Doreen Robinson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Brotabrot af því sem áður var

Hvalastofnarnir eru aðeins agnarögn af því sem þeir eitt sinn voru. Mat líffræðinga era ð rétt rúmlega 1.3 milljónir hvala séu í hafinu. Það er um fjórðungur þess sem var fyrir daga hvalveiða en þá voru þeir taldir vera 4-5 milljónir.  Sumar tegundir á borð við steypireið hafa farið svo halloka að aðeins 3% af þeim eru eftir. Til þess að vernda hvali þarf að fjarlægja þær hættur sem standa þeim fyrir þrifum.

Ein leið sem bent hefur verið á er að líkja eftir REDD áætlun Sameinuðu þjóðanna til að vernda skóga.  Í þeirri áætlun er gengið út frá þeirri staðreynd að þar sem 17% af losun koltvísýrings megi rekja til eyðingar skóga, beri að umbuna þeim ríkjum sem vernda skóga.

„Á sama hátt er hægt að skapa fjárhagslega ferla til að stuðla að því að endurreisa hvalastofna heimsins,“ segir í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. „Greiða má styrki eða bætur til þeirra sem verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna verndar hvala. Sem dæmi má nefna mætti bæta skipafélögum upp kostnað við að breyta siglingaleiðum til að forðast árekstra við hvali.“

Að mati vísindamanna mun það taka þrjátiu ár að tvöfalda fjölda hvala ef ekki verði að gert. „Við höfum ekki efni á því að bíða svo lengi,” segja þeir.