#IAMSYRIAN: saga Pokémon listamannsins

0
504
WFPAbeerEtefa main

WFPAbeerEtefa main

3.ágúst 2016. Á meðan vesturlandabúar eltast við Pokémon eru Sýrlendingar hundeltir í sínu eigin heimaland.

Þetta er boðskapur sýrlenska listamannsins Mústafa Jano, sem hefur komist í fréttirnar víða um heim fyrir að nota leikinn vinsæla PokemonGo til að vekja athygli á neyð almennings í Sýrlandi.

Í dag er saga hans í brennidepli í öðrum hluta herferðar Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, sem gengur undir nafninu Ég er Sýrlendingur eða #IAMSYRIAN á samfélagsmiðlum. Frá ársbyrjun hefur WFP notað þessa herferð til að vekja fólk til vitundar um vanda Sýrlendinga á flótta með því að nota frásagnir venjulegs fólks sem hefur orðið fyrir barðinu á stríðinu.

„Heimsbyggðin er að ganga af göflunum vegna Pokémon. En a meðan fólk er að leita að Pokémon hér þá eru vinir mínir og fjölskylda hundelt í Sýrlandi. Þau eru drepin einfaldlega vegna þess að þau eru Sýrlendingar,“ segir Mústafa Jano.

WFP MoustafaMústafa bjó í borginni Aleppo ásamt konu sinni og börnum þar til 2012 er stríðið barst þangað. Eftir því sem átökin færðust í aukana varð erfiðara fyrir Mústafa og fjölskyldu hans að vera um kyrrt í Aleppo. Þau komust ekki út fyrir hússins dyr og Mústafa segir að „sprengjum rigndi yfir okkur og barist var í götunni.“

Mústafa og fjölskylda hans héldu til norðurhluta Íraks en þar fengu þau aðstoð frá WFP meðal annara. Þremur árum síðar lá leiðin til Svíþjóðar því Mústafa segist ekki hafa séð neina framtíð fyrir börnin í norður Írak. Hann segist hafa hætt lífinu við að komast til Svíþjóðar. Nú ver hann öllum sínum tíma í miðstöð fyrir flóttamenn. En honum finnst hann þurfa að gera meira en það og hann vill leggja sitt af mörkum. 

Hann vildi koma á framfæri boðskap sem gæti náð eyrum valdhafa heimsins og fengið þá til að grípa til aðgerða og hjálpa sýrlensku þjóðinni.

Hann vildi beina athyglinni að skort á mannúð og að fólkinu sem enn býr og þjáist í Sýrlandi. Fólk með sínar tilfinningar, þarfir og vonir.
Í því skyni snéri hann sér að list. Hann tók myndir af ferð sinni, reynslu og þjáningum.

„Ég nota Pokémon og bjó til herferð sem hefur farið víða um heim,“ segir Mústafa.

Hann vonast til að geta notað æðið í kringum PokemonGo til að ná athygli heimsins og ýta við fólki svo það hugsi um fleira en að eltast við stafræn fyrirbæri og rétti hundeltum sýrlenskum fjölskhyldum hjálparhönd.

Ef þið viljið sýna samstöðu og vekja athygli á sögum Sýrlendinganna þá skulið þið dreifa þeim á netinu, til dæmis með því að hlaða upp #IamSyrian sögum á samskiptamiðlum.