IKEA lýsir upp flóttamannabúðir

0
449

IKEA

10.febrúar. Ljósleysi er eitt af mörgum vandamálum sem flóttamenn glíma við. Þegar sólin sest verða einföldustu mál flókin.

Börn geta ekki sinnt heimanámi, að ekki sé minnst á vatnsburð. Oftast er það hlutverk kvenna og stúlkna að sækja vatn og hættur geta leynst í myrkrinu. 

“Ég hef fundið mjög mikið fyrir þessu frá því ég kom hingað”, segir Sumaiya, flóttakona frá Sómalíu í Eþíópíu. “Á daginn getur maður gert allt sem maður vill, en á kvöldin kemst maður ekki einu sinni á salernið. Maður getur ekki eldað því maður sér ekki handa sinna skil og er ekki öruggur.”

IKEA sjóðurinn hefur hafið tveggja mánaða söfnun til þess að útvega sólarorkuknúna lýsingu og nýta aðra endurnýjanlega orku í flóttamannabúðum í umsjón Sameinuðu þjóðanna og er það gert með sölu ljósapera í verslunum IKEA um allan heim.
Herferðinni “Bjartara líf flóttamanna” er ætlað að fjármagna sólarorkuknúna götulýsingu og sólarluktir innanhúss. Einnig má nefna sparneytnar eldavélar sem nota endurnýjanlega orku. Þær koma að notum í löndum á borð Við Bangladesh, Tsjad, Eþíópíu og Jordaníu. 

“2 milljónir manna flúðu land árið 2013 sem er það mesta í nærri tvo áratugi. Stuðningur einkageirans verður sífellt brýnni þegar glíma þarf við svo tröllaukin mannúðarvandamál,” segir António Guterres, forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í fréttatilkynningu.  “Þessi herferð er nýr liður í einstakri samvinnu okkar við IKEA sjóðinn en hann er stærsti stuðningsaðili Flóttamannahjálparinnar í einkageiranum. Saman munum við breyta lífi margra flóttamanna til hins betra.”

Í dag eru tíu og half milljón flóttamanna í heiminum, þar af er helmingur börn, að sögn Flóttamannahjálparinnar. Sumir flóttamannanna hafa engan annan kost en að hafast við í tjöldum, þar sem ljósaskortur eftir sólsetur hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir öryggi flóttamanna.

IKEA sjóðurinn hefur starfað með UNHCR frá 2010 og útvegað skjöl, umönnun og menntun fyrir fjölskyldur og börn í flóttamannabúðum og fólk í nágrenni þeirra. Sjóðurinn hefur látið 73 milljónir evra renna til starfs Flóttamannahjálparinnar.

Mynd: Sólarorkuknúin lukt lýsir upp tjald sem hýsir flóttakonu frá Sómalíu og fjölskyldu hennar í Eþíópíu. Mynd: © IKEA Foundation/Åsa Sjöström