Íslensk varðskip til Miðjarðarhafsins

0
455

Lampedusa

5.nóvember 2014. Ísland mun taka þátt í aðgerðum Evrópusambandsins vegna landamæraeftirlits á Miðjarðarhafi, en „Mare Nostrum“ aðgerð Ítala lauk um síðustu mánaðamót.

Landhelgisgæslan er að undirbúa þátttöku varðskipsins Týs í aðgerðinni sem nefnist Triton, í desember og janúar. Ráðgert er að Týr hald út um 20. nóvember og verði suður af Ítalíu til lok janúar, að sögn Auðuns F. Kristinssonar verkefnisstjóra aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni.

Reiknað er með að varðskipið fari á svæðið suður af Sikiley en þar hefur orðið gríðarleg aukning í fjölda flóttafólks síðustu misseri og hundruðir manna farist við að freista þess að komast til Evrópu. 
Illa hefur gengið að fá Evrópusambandsríki til að taka þátt í verkefninu og hafa Bretar beinlínis lýst yfir andstöðu við það.  Ísland er eitt átta ríkja sem leggja Triton verkefninu lið með mannskap og tækjabúnaði og annað tveggja Norðurlanda en hitt er Finnland. Noregur og Svíþjóð eru í hópi 12 ríkja sem leggja til mannskap til að taka á móti og skrá flóttafólk í landi.

Takmarkaðra verkefni

Sameinuðu þjóðirnar hafa látið í ljós þungar áhyggjur af því að Triton muni ekki bjarga jafn mörgum mannslífum og Mare Nostrum en lokið hefur verið miklu lofsorði á Ítali fyrir framgöngu þeirra í því verkefni. Triton er aðeins þriðjungur af umfangi „Mare Nostrum“ sem því er ætlað að leysa það af hólmi. Eftirlitið mun aðeins ná þrjátíu sjómílur frá ströndum Ítalíu.

SwingIOM, Alþjóða fólksflutningastofnunin óttast að það muni hafa alvarlegar afleiðingar að eftirlitið nái ekki lengur til alls Miðjarðarhafsins. „Ekki er hægt að líta á Triton sem arftaka Mare Nostrum,“ segir William Lucy Swing, forstjóri IOM. „Það þyrfti að að ná til Miðjarðarhafsins alls. Straumur fólks verður áfram mikill og stöðugur og því er hætta á því að skipsköðum fækki ekki.“ 

Áður hafði talsmaður Flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna lýst áhyggjum sínum af minna eftirliti. „Það er hætta á því að fleira fólk látist, vitaskuld,“ sagði Carlotta Sami. „Ef dregið er úr umfangi verkefnisins eykst hættan á því að manntjón aukist.“

Talið er að 3200 hafi látist við að komast yfir Miðjarðarhafið á árinu 2014. Margir þeirra voru fórnarlömb óforskammaðra smyglara sem nýtt hafa sér eymd fólks sem flúið hefur átök og ofríki í heimalöndum sínum. 

Ísland á aðild að Frontex

Triton er á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins en Ísland á aðild að henni í gegnum Schengen-sáttmálann. Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í verkefnum á vegum Frontex frá árinu 2010, bæði með flugvél og varðskipvarðskipi. 

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa á tímabilinu komið að óteljandi björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi þar sem þúsundum manna hefur verið bjargað og er mikil þörf á að Evrópuþjóðir taki höndum saman við leit-, björgun og eftirlit á svæðinu, segir í Fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Sjá um bakgrunn fólksflutninga: https://www.unric.org/is/frettir/26261-barcelona-eea-daueinn-leiein-langa-til-evropu

Myndir: 1.) Þúsundir manna hafa látist við að freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið. Mynd: UNHCR/Phil Behan.  2.) Bandaríkjamaðurinn William Lucy Swing, er forstjóri IOM, sem er stofnun tengd Sameinuðu þjóðunum. 3.) Varðskip af vef Langhelgisgæslunnar.