Íran hafnar því að stöðva auðgun úrans. Ban Ki-moon hefur‘þungar áhyggjur

0
493

22. febrúar 2007 – Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagðist í dag “hafa þungar áhyggjur” af því að Íran skuli ekki hafa sinnt tilmælum Öryggisráðsins um að hætta auðgun úrans.

Ban lagði áherslu á að kjarnorkuáætlun landsins hefði afleiðingar fyrir frið, stöðugleika og útbreiðslu gereyðingarvopna. 
“Ég hvet írönsku ríkisstjórnina til að fara í einu og öllu eftir ályktunum Öryggisráðsins og taka þátt í áframhaldandi viðræðum við alþjóðasamfélagið svo hægt sé að leysa þetta mál á friðsamlegan hátt”, sagði Ban Ki-moon á fréttamannafundi í Vínarborg í Austurríki þar sem hann er í opinberri heimsókn.  
Auðgun úrans miðar að því að framleiða eldsneyti sem hægt er að nota til framleiðslu kjarnorku eða kjarnorkuvopna. Íranar segja tilgang sinn eingöngu friðsamlegan en önnur ríki þar á meðal Evrópuríki og Bandaríkin segja að markmið Írans sé vopnaframleiðsla.
Öryggisráðið samþykkti þvingunaraðgerðir í desember og bannaði sölu hvers kyns hráefna, tækja , vöru eða tækni sem gæti gert Írönum kleift að auðga úran, framleiða þungt vatn eða tæki til að varpa kjarnorkuksprengjum. Ríkisstjórn landsins fékk frest til 21. desember til að hætta allri slíkri starfsemi ekki síst auðgun úrans.
Forstjóri Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA), kjarnorkueftirlitsstofnunar Sameinuðu þjóðanna lagði í dag fram skýrslu í Öryggisráðinu sem kann að leiða til frekari þvinungaraðgerða.
“Ég er þess fullviss að aðildarríki Öryggisráðsins munu ræða til hvaða aðgerða skuli gripið til viðbótar við þær þvinganir sem ákveðnar voru í desember”, sagði Ban. “Forstjóri IAEA mun leggja tillögur sínar fyrir Öryggisráðið og nú er það aðildarríkja þess að ákveða framhaldið.”

Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=21650&Cr=iran&Cr1=