Aukin framlög vegna Sýrlands og ebólu

0
421

Ebola

29.desember 2014. Ákveðið hefur verið að Ísland láti 32 milljónir króna aukalega renna til mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna í þágu sýrlenskra flóttamanna og ebóla-baráttunnar.

SYR 20131202 WFP-Dina Elkassaby 0176

Framlögin renna til Matvælaáætlunar SÞ, WFP, vegna mataraðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna vegna ebólafaraldursins. 

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er haft eftir Gunnari Braga Sveinssuni utanríkisráðherra að mikil þörf sé fyrir mataraðstoð til sýrlenskra flóttamanna. Þeir eru nú yfir þrjár milljónir og fjöldinn eykst enn vegna áframhaldandi átaka og árása hryðjuverkasamtaka ISIS. Þá segir að í  byrjun desember hafi Matvælaáætlun SÞ tilkynnt að stofnunin hefði þurft að hætta mataraðstoð til 1.7 milljóna flóttamanna á svæðinu þar sem sjóðir væru uppurnir. Í kjölfar sérstaks ákalls til ríkja heims hafi stofnunin hafið mataraðstoð að nýju, en þeir sjóðir sem safnast hafi dugi þó einungis fram í janúar næstkomandi og því sér brýn þörf á frekari aðstoð.Ebola stop ebola.Credit WHO

Þá er einnig brýn þörf fyrir aðstoð í Vestur-Afríku þar sem ebóla hefur breiðst út, en börn eru sérstaklega í mikilli hættu á að sýkjast. Fjöldi barna á um sárt að binda vegna faraldursins, sem hefur gert þúsundir barna munaðarlaus. Með framlaginu til UNICEF er brugðist við neyðarkalli stofnunarinnar til að berjast gegn faraldrinum og afleiðingum hans. Þegar hafa verið veittar 37 milljónir kr. á árinu til baráttunnar gegn ebólufaraldrinum og 33 milljónir kr. vegna ástandsins í Sýrlandi, segir í fréttatilkynningunni.

 Myndir:1.)  Fórnarlamb ebóla-faraldursins borið til grafar í Freetown í Sierra Leone á aðfangadag jóla, 24.desember síðastliðinn. SÞ-mynd/Martine Perret. 2) Aðstoð WFP í Sýrlandi. Mynd:WFP.