Ísland mælist með minnstu barnafátækt í heimi

0
428

Child poverty

29. maí 2012. Tugmilljónir barna búa við fátækt í efnuðustu ríkjum heims: Í nýrri skýrslu UNICEF mælist Ísland með minnstu barnafátækt í heimi.

■ 0,9% íslenskra barna búa samkvæmt skýrslunni við efnislegan skort

■ Börn atvinnulausra þó tuttugu sinnum líklegri til að líða skort en börn annarra

■ Hlutfallið undir 3% alls staðar á Norðurlöndunum en um og yfir 10% í mörgum velmegandi ríkjum ■ „Viðleitni til að ná til viðkvæmustu hópa barna í efnameiri ríkjum.“

Ný skýrsla frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, leiðir í ljós að 13 milljónir barna innan Evrópusambandsins, í Noregi og á Íslandi, skortir margvísleg atriði sem nauðsynleg eru fyrir þroska þeirra og velferð. Þrjátíu milljón börn í 35 efnuðum hagkerfum búa auk þess við hlutfallslega fátækt. Ísland kemur allra ríkja best út í skýrslunni.

Í skýrslunni sem ber heitið Report Card 10: Measuring Child Poverty og kynnt er alþjóðlega í dag, er að finna nýstárlega leið til að mæla barnafátækt í velmegandi ríkjum. Það er gert með mælingu á svokallaðri „skortvísitölu barna“.

Samkvæmt henni líður barn efnislegan skort ef það hefur ekki aðgang að tveimur eða fleiri atriðum af fjórtán sem álitin eru segja til um lífsgæði í efnameiri ríkjum heims. Þar má nefna þrjár máltíðir á dag, a.m.k. tvö pör af skóm, rými og næði til að vinna heimavinnu, möguleika á tómstundaiðkun, efni sem nægja til að halda afmælisveislu fyrir barnið og burði til þátttöku í ferðalögum og viðburðum á vegum skóla. Stuðst er við nýjustu tölur sem aðgengilegar eru en þær eru frá árinu 2009.

Mikill munur á milli hópa hér á landi

Skortvísitala íslenskra barna er samkvæmt skýrslunni 0,9% sem þýðir að innan við 1% íslenskra barna býr við efnislegan skort. Það er lægsta hlutfall allra þeirra 29 ríkja sem mæld voru. Mikill munur er þó innan ákveðinna hópa í íslensku samfélagi. Börn foreldra með litla menntun og börn innflytjenda eru til dæmis fjórum sinnum líklegri en önnur til að líða skort samkvæmt mælingunni og börn einstæðra foreldra fimm sinnum líklegri. Berskjaldaðasti hópurinn er börn atvinnulausra. Tæp 18% barna sem eiga foreldra sem báðir eru atvinnulausir líða efnislegan skort. Þau eru því tuttugufalt líklegri en önnur börn á Íslandi til að vera í þeirri stöðu.  

„Skýrslan tilheyrir Report Card-rannsóknarritröð UNICEF sem er merkileg fyrir þær sakir að hún er viðleitni til að ná til allra berskjölduðustu barnanna í ríkjum sem hafa almennt náð tökum á þeim stóru ógnum sem blasa við öðrum börnum heimsins, svo sem barnadauða og bráðavannæringu. Hér er verið að þróa mælitæki og aðferðir til að ná til viðkvæmustu hópa barna í efnameiri ríkjum. Mikilvægt er að finna þessa hópa til að ekkert barn falli á milli fjala,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Hlutfallsleg fátækt mæld

Af þeim ríkjum sem mæld voru er hæsta hlutfall barna sem líða skort að finna í Rúmeníu (72,6%).  Næst á eftir eru Búlgaría (56,6%) og Ungverjaland (31,9%). Af öðrum ríkjum má sem dæmi nefna Pólland (20,9%), Ítalíu (13,3%), Þýskaland (8,8%) og Lúxembúrg (4,4%). Norræn börn eru síst líkleg til að líða efnislegan skort. Hlutfallið er undir 3% á öllum Norðurlöndunum en hæst í Danmörku (2,6%).

Hin mælingin sem tekin er fyrir í skýrslunni lítur að hlutfallslegum fátæktarmörkum. Rannsakað er hlutfall þeirra barna sem falla neðan við fátæktarmörk á landsvísu – skilgreind sem 50% af miðgildi ráðstöfunartekna. Með þeirri mælingu reynir UNICEF að meta hlutfall þeirra barna sem hafa dregist aftur úr þeirri lífsgæðaþróun sem telst eðlileg í heimalandi þeirra.

Norðurlöndin og Holland geta státað sig af lægstri tíðni hlutfallslegrar barnafátæktar, um 7%. Í Ástralíu, Kanada, Nýja Sjálandi og Bretlandi er hlutfallið á milli 10% og 15%, á meðan rúmlega 20% barna í Rúmeníu og Bandaríkjunum lifa undir mörkum hlutfallslegrar fátæktar. 4,7% íslenskra barna lifa undir fátæktarmörkum samkvæmt skýrslunni, en það er lægsta hlutfall allra þeirra 35 ríkja sem sú mæling nær til.

„Skýrslan sýnir hversu mikilvægt það er að mæla barnafátækt – bæði þegar vel árar en ekki síst þegar kreppir að eins og nú. Börn eru viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn og umfang og eðli barnafátæktar er skýr endurspeglun á aðstæðum í samfélaginu í heild. Við þurfum nýrri tölur og reglulegri mælingar, bæði á hlutfallslegri fátækt og skorti á lífsgæðum,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Gögnin leiða í ljós að allt of mörg börn skortir grundvallarlífsgæði í ríkjum sem hafa ráð á að veita þeim þau,“ segir Gordon Alexander, yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar UNICEF. „Hættan er sú að í núverandi efnahagsástandi munum við ekki taka eftir afleiðingum slæmra ákvarðana fyrr en að löngum tíma liðnum.“

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu unicef.is www.unicef.is, eða með því að smella beint á eftirfarandi tengil: http://unicef.is/files/file/RC10.pdf

Nánari upplýsingar veitir:

Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, s. 690-1175 / [email protected]

Viðtöl veitir:

Bergsteinn Jónsson, verkefnastjóri UNICEF á Íslandi, s. 615-4049 / [email protected]

Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefislandmailto: