Ísland styður umbótatillögu Frakka

0
445

 GBS-i-raedustol-vitt-skot

29.september 2014. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra tók í dag undir tilllögu Frakka um endurskoðun á neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt tillögunni myndu ríkin fimm sem hafa neitunarvald í ráðinu , sjálfviljug bindast samtökum um að neitunarvald gildi ekki í málefnum sem fjölluðu um fjöldamorð eða álíka glæpi.

Gunnar Bragi sagði í ræðu sinni fyrir Íslands hönd í pólítisku umræðunum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að trúverðugleiki Öryggisráðsins væri í hættu þegar eitt aðildarríkjanna bryti stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hindraði síðan viðbrögð með beitingu neitunarvalds.

Gunnar Bragi gagnrýndi ekki aðeins Rússa í ræðu sinni því hann vék einnig að nýliðnu stríði á Gasaströndinni og gagnrýndi Hamas og Ísraelsmenn. Sagði hann að binda yrði enda á hernám Ísraelsmanna sem væri brot á alþjóðalögum auk þess sem mannréttindabrot og landrán viðgengjust óátalið.

Utanríkisráðherra fjallaði ítarlega um framlag Íslands til starfs Sameinuðu þjóðanna og kom sérstaklega inn á svokallaða “rakarastofu” ráðstefnu Íslands og Súrinam í janúar á næsta ári en þar munu karlar ræða sín á milli um jafnrétti kynjanna með áherslu á ofbeldi gegn konum. “Þessi ráðstefna verður einstök í sinni röð og verður í fyrsta skipti sem karlkynsleiðtogar hittast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að ræða jafnrétti og verður gott framlag til Beijing+20 og #HeforShe herferðanna,” sagði Gunnar Bragi í ræðu sinni á Allsherjarþinginu.

Sjá myndband af ræðu utanríkisráðherra hér.