A-Ö Efnisyfirlit

Íslendingar hika ekki við að ráðleggja Guterres

Íslendingar hafa brugðist vel við hvatningu Sameinuðu þjóðanna um að segja skoðanir sínar á hvert samtökin eigi að fara í framtíðinni.

Sameinuðu þjóðirnar fagna 75 ára afmæli sínu 24.október á þessu ári, en í stað þess að efna til kostnaðarsamra hátíðarhalda var ákveðið að kanna vilja íbúa heimsins um málefni sem eru á dagskrá samtakanna.

UN75

Hundruð Íslendinga hafa svarað könnuninni og hafa það sem af er aðeins Svíar verið öflugri af Evrópuþjóðum í viðbrögðum sínum miðað við fólksfjölda.

Svörin i könnuninni verða tekin saman í skýrslu sem António Guterres aðalframkvæmdastjóri mun afhenda veraldarleiðtogum á Allsherjarþinginu síðari hluta septembermánaðar.

Fjöldi fólks hefur orðið við beiðni okkar um að deila hvaða ráð þau myndu gefa aðalframkvæmdastjóranum og er óhætt að segja að þar kenni margra grasa; allt frá aukinni varðstöðu um lýðræði, frið og mannréttindi, áherslu á málefni Afríku til eflingar fríverslunar og umbóta á Alþjóða heilbrigðismálstofnuninni.

„Sennilega hefur mikilvægi Sameinuðu þjóðanna aldrei verið meira en einmitt nú, þegar sumar traustustu stoðir lýðræðis og mannréttinda á Vesturlöndum virðast vera að morkna,“ segir Ólafur Arnarson hagfræðingur í svari sínu við könnuninni.

Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur telur að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna geti treyst á stuðning þjóða heims og eggjar hann til „að vera sýnilegur í starfi, taka af skarið, lúffa ekki fyrir leiðtogum stórvelda. Muna að hann er með allan heiminn á bak við sig.”

75 ára afmæli SÞ Þóra Kristín Ásgeirsdóttir upplýsingafulltrúi telur að Sameiðu þjóðirnar þurfi að sýna meiri ákveðni. „Mesta hættan er eftir sem áður af stríði, sjúkdómum og hlýnun harðar og uppgangi þjóðernisfasisma. Það verður að finna leið til að refsa og umbuna löndum með þeim hætti að það hafi áhrif í alþjóðasamfélaginu. Það myndi auka virðingu SÞ. Það þarf að stórefla réttindi barna á flótta og í stríði og taka á alþjóðlegum stórfyrirtækjum og skattasniðgöngu.“

Einar Scheving tónlistarmaður er á svipuðum nótum. „Að SÞ taki hlutverk sitt alvarlegar; að sýna ríkjum heims aðhald og beita þau þrýstingi varðandi frið, mannréttindi og umhverfisvernd.“

Rósa Þórisdóttir mannfræðingur segir að auðvelda þurfi samskipti út á við og hlusta enn betur eftir svæðis og hópa bundnum þörfum. „Þarfir eins eru ekki þarfir annars. SÞ gætu aukið enn frekar virka hlustun sína og samvinnu með mismunandi hópum fólks.”

Andrés Magnússon blaðamaður telur að læra beri af sögunni. „Trúverðugleika WHO þarf að endurreisa með ærlegum breytingum NÚNA! SÞ þarf að beita sér fyrir fríverslun til að samþætta hagsmuni þjóðanna.”

Margir nefna loftslags- og umhverfismál, Anna Lísa Björnsdóttir samskipta og viðburðastjóri VG segir: „Mitt „ráð“ til hans, sem og annara leiðtoga er: Samúð og virðing, bæði fyrir mannkyninu og náttúrunni er það mikilvægasta sem við getum krafist af okkar leiðtogum.“

Sverirr Norland rithöfundur orðar sömu hugsun á annan hátt: Sverrir Norland „Hó. Snöggsoðið í þessari mynd en vesgú: a) Taka veggina af skólastofunni: hleypa börnum út svo þau læri að skilja – og þar með elska – jörðina. b) Taka völdin sem mest úr eldri höndum og setja í yngri hendur.“

Jóhann Hlíðar Harðarson fréttamaður hefur líka trúa á unga fólkinu: „Og einu skilaboðin sem ég hef til Guterres er að við eigum alltaf að hlusta meira á unga fólkið. Það hefur alltaf, á öllum tímum verið „föðurbetrungar“.

Þórunn Hreggviðsdóttir hjúkrunarfræðingur þekkir vel til málefna Afríku.

„Vandi Afríku er mikill og fer vaxandi, ekki aðeins fer íbúum ört fjölgandi heldur eru innviðir lélegir eða engir. Framtíð miljóna manna er í húfi. Hjálpum Afríku á fætur með öllum mögulegum aðgerðum, það verður plánetunni til heilla.“

Valdís Gunnarsdóttir markaðsstjóri tekur í sama streng og bætir um betur. „Hann beiti sér fyrir því að þjóðir á Vesturlöndum verði upplýstar um hvað þróunarríkin færa miklar fórnir í okkar þágu. Misskiptingu burt!“

Svo mörg voru þau orð – við höldum áfram að birta skilaboð Íslendinga til António Guterres aðalframkvæmdastjóra á næstu dögum. Lesendur eru hvattir til að svara könnuninni og geta auk þess deilt ráðum sínum til aðalframkvæmdastjórans með okkur en úrval svar verður birt á næstunni.

Könnunin á íslensku er hér: https://un75.online/?lang=isl

Netfang upplýsingafulltrúans Árna Snævarr: [email protected]

 

Fréttir

Að efla réttindi fatlaðra

🇺🇳 75 ára afmæli – 75 dæmi um að Sameinuðu þjóðirnar skipti sköpum 🇺🇳 Sameinuðu...

Guterres segir að lýð- og þjóðernishyggja hafi brugðist

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag á Allsherjarþingi samtakanna að heimurinn stæði...

Forsætisráðherra: jafnrétti verði í fyrirrúmi í endurreisn eftir COVID-19

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hvatti til þess að “jafnrétti kynja og kynþátta” verði í fyrirrúmi...

UNICEF og samskiptamiðlar sameinast gegn neteinelti

Helstu samskiptamiðlar hetims hafa tekið höndum saman með UNICEF í baráttunni gegn neteinelti. Barnahjálp Sameinuðu...

Álit framkvæmdastjóra