„Stríð gæti brotist út á ný á Gasa“

0
401

 gaza1

9.febrúar 2015. Íslendingur sem vinnur fyrir Sameinuðu þjóðirnar segir verulega hættu á því a stríð brjótist út að nýju náist ekki samstaða á næstu mánuðum um uppbyggingu á Gasa og að aflétta herkví Ísraels.

 „Flugskeyti eru farin að sjást að nýju á Gazasvæðinu og er þeim skotið frá Gaza á haf út. Náist ekki samstaða á allra næstu mánuðum um uppbyggingu á Gaza og samningar um að aflétta þar herkví Ísraels, er talin veruleg hætta á því að stríð brjótist út að nýju með tilheyrandi hörmungum,” skrifar Birgir Þórarinsson í grein í Fréttablaðinu en hann starfar í Jerúsalem á vegum UNRWA, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem sér um málefni palestínskra flóttamanna.

110 þúsund heimili Palestínumanna voru eyðilögð eða skemmd alvarlega í árásum Ísraela á Gasa-svæðið í 51 dags átökum í sumar en flugskeytum hafði verið skotið þaðan á Ísrael. Alls létust 2.310 Palestínumenn, þar af um 70% óbreyttir borgarar. Fjöldi fallinna Ísraelsmanna er 73, þar af 7 óbreyttir borgarar.

Birgir„Engum dylst hugur um að aflsmunurinn í þessu stríði var gífurlegur og eyðileggingin á Gaza veruleg,” segir Birgir í grein sinni. „Margir búa í húsarústum og hafa þurft að yfirgefa hrörleg heimili sín vegna flóðahættu. Rafmagnslaust er víða og fólk hefur látist úr kulda.”

UNRWA hefur orðið að hætta fjárveitingum til tuga þúsunda Palestínumanna sem vilja gera við heimili sín og húsaleigustyrki til heimilislausa. UNRWA hefur óskað eftir 720 milljónum Bandaríkjadala til að gera við eða endurreisa eyðilögð heimili en aðeins tekist að tryggja 135 milljónir dollar og því vantar 585 milljónir.

Haldin var alþjóðleg ráðstefna um málefni Gasa í Kaíró í Egyptalandi í október og tókst að safna loforðum um 5.4 milljarða Bandaríkjadala framlög. „Í raun hefur ekkert af því fé enn náð til Gasa“, segir Robert Turner, forstjóri UNRWA á Gasa-svæðinu. „Þetta er ömurlegt og óásættanlegt.“
„Það er auðvelt að horfa á þessar tölur og gleyma því að á bakvið þær eru þúsundir fjölskyldna sem líða þjáningar á þessum kalda vetri í ófullnægjandi húsaskjóli. Fólk sefur beinlínis innanum rústirnar og börn hafa látist úr ofkælingu,“ bætir Turner við.gazafloods

Birgir Þórarinsson tekur í sama streng í grein sinni í dag. „Mikil óvissa er nú á Gaza. Reiði og vonleysi ríkir, skrifar Birgir Þórarinsson. „Almenningur er orðinn langeygur eftir því að uppbyggingin hefjist. Atvinnuleysi er um 50%. Opinberir starfsmenn hafa ekki fengið greidd laun í 1 ár. Mótmæli eru víða.”

Norðmenn og Egyptar voru sameiginlega í forystu ráðstefnunnar í Kaíró þar sem safnað var fé til uppbyggingar á Gasa. Kaldhæðnislegt er að þar söfnuðustu hærri áheit en stefnt var að, en efndir hafa verið litlar og nú hafa utanríkisráðherrar Noregs og Egyptalands hafið herferð til að innheimta loforðin.

„Þetta er harmleikur fyrir alla hlutaðeigandi og ekki síst fyrir þróun Gasa, segir Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs. „Þessar tafir eru einungis vatn á myllu þeirra sem vilja ekki rjúfa þann neikvæða vítahring átaka og ofbeldis sem tengist Gasa.“

Mynd: UNRWA.