Íslenska “Facebook” stjórnarskráin

0
458

Crowdsourcing photo

11. desember 2012. Kastljósinu er beint að opnu ferli og almennri þátttöku almennings við samningu íslensku stjórnarskrárinnar í nýju vefriti Sameinuðu þjóðanna. Ferlið við samningu stjórnarskrárfrumvarpsins sem nú er til umræðu á Alþingi er á meðal þeirra atriða sem brotin eru til mergjar í In Focus (http://www.unric.org/en/right-to-participation), vefriti UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, sem kom út í gær á Mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.

Þema Mannréttindadagsins í ár er rétturinn til þátttöku eða “Rödd þín skiptir máli” og er þar vísað til þátttöku almennings í ákvarðanatöku.
Væntanleg ný íslensk stjórnarskrá kann að verða hin fyrsta í heimi þar sem almenningur hefur átt þess kost að taka beinan og milliliðalausan þátt í samningarferlinu, meðal annars á netinu.

Í greininni er rakin tilurð stjórnarskrárdraganna frá Hruninu til kosninga stjórnlagaþings og skipan stjórnlagaráðs til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þar segir ma.: “Öll okkar vinna var sett á netið, á Facebook og vefsíðu okkar og hver einasti Íslendingur átti þess kost að segja álit sitt eða senda okkur tillögur sínar eða tjá hugsanir sínar,” segir Ástrós Signýjardóttir, yngsti félaginn í stjórnlagaráðinu, tuttugu og fjögurra ára í kosningunum. “Við tókum tillit til allra athugasemda og tillagna, ræddum þær og sumar hverjar skiluðu sér í lokaskjalið.”

Alls bárust 3600 uppfærslur á internetið, ekki síst á samskiptamiðlum auk 370 formlegra erinda sem send voru með hefðbundnum hætti. Öll gögn voru aðgengileg á netinu og fundir voru sýndir beint í sjónvarpi og vefvarpi. Annar stjórnlagaráðsliði, Eiríkur Bergmann, fjallar um þetta ferli í væntanlegri bók á ensku*. Hann segir að það sé ef til vill ýkjur að tala um “crowdsourcning” það er að almenningur hafi samið stjórnarskrárdrögin einfaldlega vegna þess að Ráðið hafi einungis haft fjóra mánuði til stefnu til að skila tillögum sínum.

“Stjórnlagaráðið fagnaði þeirri áherslu sem lögð var á hlut almennings í fjölmiðlum (crowdsourcing) og ýtti jafnvel undir það tal sínum málstað til framdráttar í innanlandspólitík” sagði Eiríkur. “Þetta er hins vegar ekki raunsæ lýsing á samningu uppkastsins. Ferlið var ótrúlega opið en ráðið hafði ekki tök á því að fara í saumana á þessu mikla tillagna-flóði því það hafði aðeins fjóra mánuði til að ljúka starfi sínu.”

Hver sem hlutur almennings var, þegar upp var staðið, er ljóst að baráttumenn fyrir opnum stjórnarháttum um víða veröld, munu benda (og hafa raunar nú þegar bent) á Ísland sem frumherja í opnu ákvarðanaferli sem byggist á þátttöku almennings.

Skopmynd eftir Halldór Baldursson, birt með góðfúslegu leyfi höfundar.