Jafnrétti er snjöll efnahagsaðgerð

0
429
Reinfeldt

Jafnrétti kynjanna snýst ekki aðeins um sjálfsögð mannréttindi heldur snjallar efnahagsaðgerðir. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar lét þessi orð falla í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og sagði að ef bilið á milli karla og kvenna í atvinnu væri brúað myndi það skila hagkerfi heimsins miklum hagnaði.

Reinfeldt“Þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna myndu aukast um 9 af hundraði, Evrusvæðisins um 13 af hundraði og Japan 16 af hundraði,” sagði Reinfeldt í almennum umræðum þjóðarleiðtoga á Allsherjarþinginu.
Talið er að þremur og hálfum milljarði kvenna og stúlkna um allan heim sé meinað að njóta félags- og efnahagslegra réttinda sinna að fullu en engu að síður leysa þær af hendi 66 af hundraði allrar vinnu og framleiða helming allra matvæla, að sögn Reinfeldts.

Hann benti á að aukið jafnrétti kynjanna væri framtíðar-fjárfesting. Vísbendingar frá fjölmörgum löndum bentu til að þar sem konur réðu meiru um útgjöld heimilisins, færi  meira til þarfa barna, þar á meðal matvæla, heilbrigðis og menntunar.
Þegar konur gegndu hlutverki í því að byggja upp stofnanir og létu til sín taka í stjórnmálum og atvinnulífi væri meira gert í almannaþágu og spilling væri minni.

 “Í stuttu máli sé ég jafnrétti ekki sem brýnt mannréttindamál heldur einnig sem snjalla lausn í efnahagsmálum.  Ég vil nota tækifærið og hvetja alla fulltrúa sem eru í þessum sal til að hugleiða hvað það myndi hafa í för með sér mælt í hagvexti ef konum væri leyfð full þátttaka í samfélaginu.”

Sænski forsætisráðherrann lagði einnig áherslu á að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að leika lykilhlutverk í að taka upp á sína arma og viðhalda þeirri þróun í átt til lýðræðis og tjáningarfrelsis sem skotið hefði rótum víða þar sem slíkt hefði áður verið fótum troðið.