Jafnrétti og réttlæti í réttarsalnum

0
472

Pillay2

7.mars 2014. Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifaði eftirfarandi grein sem birtist í dagblöðum víða um heim í tengslum við Alþjóðlegan baráttudag kvenna 8.mars.

Jafnrétti og réttlæti í réttarsalnum

Það er eðlilegt að bregðast við nöldri í kerlingunni með ofbeldi.

Kröfur kvenna um jöfn laun eru óréttmætar því þær eru líklegri til að hætta að vinna til að eiga börn.

Karlmaður sem drepur konuna sína getur fengið vægari daum ef hún hefur verið honum ótrú.

Þessi ummæli dómara eru ekki hundrað ára gömul, heldur voru þau látin falla á síðustu tíu árum. Málin sem voru til umfjöllunar voru ekki vegin og metin að verðleikum heldur á grundvelli djúpstæðra hugmynda sem takmarka réttindi og vernd kvenna og stúlkna. Konum var meinað um réttlæti í þessum tilteknu málum og í fleiri málum í réttarsölum um allan heim.

Þrátt fyrir áratuga baráttu kvenna fyrir jafnrétti, þrífast staðalímyndir af konum enn í málsmeðferð réttarkerfisins um allan heim með þeim afleiðingum að sama kerfi og á að tryggja öllum grundvallarmannréttindi, stendur í veg fyrir því að þær njóti réttlætis.

Þegar talað er um staðalímyndir af kynjunum er átt við viðteknar, lífseigar hugmyndir um ætluð einkenni og hlutverk kynjanna sem eru til þessa ætlaðar að skipa þeim með fordómum á ákveðinn bás í lífinu. Vegna djúpstæðrar mismununar gagnvart konum, hafa slíkar erfðavenjur hlutfallslega verri afleiðingar fyrir þær þegar um mannréttindi er að ræða. Jafnvel saklausar staðlímyndir geta verið af hinu vonda. Til dæmis getur sú hugmynd að konum sé “eðlislægt” að hlúa að orðið til þess að festa þá hgumynd í sessi að konum beri fremur en körlum að sinna húsverkum. Þetta getur stuðlað að brotum á mannréttindum kvenna ef þessi hugmynd teygir anga sína inn í lög og framkvæmd þeirra með þeim afleiðingum að hindra að konur fái tækifæri í menntun og atvinnu.

Mismunun í réttarsalnum þar sem sanngjörn og óvilhöll framkvæmd laga skal höfð í heiðri, er sérstaklega bagaleg. Þegar löggjöfin sjálf felur í sér mismunun er allri viðleitni til sanngjarnar málsmeðferðar þröngar skorður settar. Sem dæmi má nefna lagasetningu sem takmarkar frelsi kvenna til að ferðast, vinna utan heimilis eða njóta tiltekinnar læknisþjónustu án leyfis karlkyns ættingja. Enn verra og algengara er þegar dómarar eru undir áhrifum frá skaðlegum kynjastaðalímyndum í túlkun laga og uppkvaðningu dóma. Þessa sjást oft merki í málum sem snúast um kynbundið ofbeldi, jöfn tækifæri í atvinnulífi, kynferðislegt heilbrigði kvenna og kvensjúkdóma. Og þegar dómarar kveða upp úrskurði þar sem þeir taka mið af kynlífi konu þegar í veði eru lagaleg réttindi hennar og vernd gegn nauðgun eða heimilisofbeldi, þá eru mannréttindabrot á ferðinni.

Ríkjum ber einnig að grípa til aðgerða til að uppræta hvers kyns skaðlega notkun kynbundinna staðlímynda í meðferð glæpamála, þar á meðal rannsókn, saksókn, yfirheyrslur og vernd vitna og dómsuppkvaðningar. Sérstakra aðgerða er þörf til að tryggja að embættismenn ríkisvaldsins, sérstaklega í dómskerfinu, taki ekki ákvarðanir sem byggist á skaðlegum staðalímyndum og grafi undan mannréttindum kvenna og stúlkna. Þvert á móti ættu embættismenn að fylgjast með og finna slíkar neikvæðar bábiljur og skapa þannig andrúmsloft þar sem ríkir meiri virðing fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna og leggja þannig hornstein að jafnréttismenningu.

Ef okkur er alvara í því að koma á jafnrétti kynjanna þegar farið er að líða á tuttugustu og fyrstu öldina, verðum við að beita okkur af meira afli við að grafa undan neikvæðum fordómum um hlutverk kynjanna. Hættum að hlíta viðteknum hugmyndum um hvað konu ber og ber ekki að gera á þeim forsendum einum að þær eru konur. Þess í stað ber okkur að líta á konur sem einstakar mannlegar verur í allri sinni fjölbreytni. Þetta er krafan um jafnrétti sem er grundvöllur mannréttindalaga. Embætti mitt mun sinna því af kostgæfni að marka brautina á þessu sviði. Það er mín einlæga von að starfið á þessu mikilvæga sviði marki spor á þeim stað sem er tákn um réttlæti: í réttarsalnum.