Jafnréttisskóli SÞ: 15 útskrifast

0
484

jarðhita

26.maí 2016. Fimmtán nemendur hafa útskrifuðast með diplómagráðu í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.  

Nemendurnir koma að þessu sinni frá sex löndum, Malaví, Mósambík, Úganda, Palestínu, Gana og Suður Afríku.Þeir hafa stundað nám við skólann frá ársbyrjun.

„Aukið jafnrétti og valdefling kvenna eru meðal grundvallarþátta við að skapa hagsæld og réttlátt samfélag. Niðurstöður rannsókna Alþjóðabankans sýna að fátækt er meiri meðal þjóða þar sem kynjajafnrétti á langt í land og þær þjóðir eru ofar á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna sem hafa náð meiri árangri í jafnrétti kynjanna,“ sagði Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins þegar hann ávarpaði útskriftarhóp Alþjóðlega jafnréttisskólans (UNU-GEST) í gær.

Markmið skólans er að veita sérfræðingum frá þróunarríkjum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sérsviði sínu og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Við athöfnina í gær fluttu einnig ávörp Guðmundur Halfdánarson, sviðsforseti Hugvísindadeildar HÍ, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari skólans og Daniel Amponsah frá Gana sem talaði fyrir hönd útskriftarnema.

Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti verðlaun, sem kennd eru við hana, fyrir framúrskarandi lokaverkefni. Þau komu í hlut Stella Tereka frá Úganda fyrir verkefni sem miðar að því að styrkja viðnámsþrótt kvenna í Kamuli héraði í austurhluta Úganda gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Stefán Haukur sagði ennfremur í ávarpi sínu að skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefðu um áratugaskeið verið mikilvægar stoðir alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Hann vék einnig að nýjum Heimsmarkmiðum og sagði þeim meðal annars ætlað að takast á við stóru viðfangsefni samtímans, fátækt og ójöfnuð. „Íslendingar voru sérstaklega ánægðir með áhersluna á jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna sem við teljum vera lykilinn að sjálfbærri þróun,“ sagði Stefán.

Í máli ráðuneytisstjóra kom fram að Íslendingar hafi verið lánsamir að vera lausir við átök. Það þýddi hins vegar ekki að við hefðum ekki hlutverki að gegna í friðarumleitunum og sameiginlegri hagsæld. Þar legðum við okkar af mörkum, að hluta til með því að vera rödd kynjajafnréttis og valdeflingar fyrir konur og stúlkur.

(Frétt frá utanríkisráðuneytinu)

Alþjóðlegi jafnréttisskólinn hefur útskrifað 68 nemendur á þeim níu árum sem hann hefur starfað.