„Jafnvel í dauðanum réð danskan ríkjum“

0
607
Færeyjar. mariusz kluzniak/https://creativecommons.org/licenses/by-nc-nd/2.0/

Íslenskan er oft sögð eiga undir högg að sækja sökum þess hve fáir tala hana. En ef fámenni Íslendinga stendur móðurmáli þeirra fyrir þrifum, hvað þá með Færeyinga?
Talið er að rúmlega sjötíu þúsund manns tali færeysku, rétt tæp fimmtíu þúsund í Færeyjum og afgangurinn í Danmörku að undanskildum nokkrum þúsundum hér á landi.

Í tilefni af Alþjóða móðurmálsdeginum beinum við kastjósinu að færeysku og ræddum við einn þekktasta rithöfund Færeyinga Carl Jóhan Jensen, sem þekktastur er hér á landi fyrir hið mikla verk Ó-sögur um djöfulskap sem kom út á íslensku í verðlaunaþýðingu Ingunnar Ásdísardóttur.

Víkjandi jökull

Alþjóða móðurmálsdagurinn
Carl Jóhan Jensen einn þekktasti rithöfundur Færeyinga.

„Færeyskan…stundum finnst mér hún vera eins og víkjandi jökull,“ segir Carl Jóhan á óaðfinnanlegri íslensku í viðtali við vefsíðu UNRICs. „Í ólgu miðlafars-umbrota samtímans eru við á svipuðum stað og Jens Christian Svabo, fyrsti orðabókahöfundur okkar, var þegar kringum aldamótin 1800 lýsti því yfir í formála að einu orðabókahandriti sínu, að færeyskan væri so lúin og raunar ónýt orðin, að gæti alldrei nýtst þjóðinni sem menningarmál, þessvegna væri allskostar best að láta hana lönd og leið og taka upp dönsku í staðin…færeyskan á sér þannig séð stutta sögu sem menningarmál á nútímavísu og opinbert mál, tæp hundrað ár.“

Carl Jóhan sem er nýorðinn sextugur minnir á að danskan hafi verið allsráðandi í Færeyjum á uppvaxtarárum hans; þannig hafi aðalblaðið Dimmalætting verið ð mestu skrifað á dönsku fram á níunda áratuginn. Námsbækurnar voru á dönsku í öllum greinum að færeyskunni undanskilinni.

Barnabækur á færeysku.
Mun meira úrval er af barna- og unglingabókum nú en á uppvaxtarárum Carls Jóhans.

„Aðgangur að færeysku lesefni í formi barna- eða unglingabóka var svo til enginn, mér telst til að á mínum æskuárum hafi komið út um það bil tíu fimmtan bækur á færeysku handa börnum og unglingum. Viðskipti við opinberar stofnanir eins og póstinn til dæmis fóru fram á dönsku. Allar auglýsingar voru á dönsku í verslunum og sama gilti um obbann af opinberum tilkynningum, enda mörg svið stjórnsýslunnar ennþá undir danskri stjórn í þá daga, þrátt fyrir heimastjórnarlögin, sem tóku gildi í apríl árið 1948.
Jafnvel í dauðanum réð danskan ríkjum… þegar dánarfregnir og jarðarfarir vóru lesnar í útvarpi var iðulega tekið fram að sungið yrði úr dönsku sálmabókinni. Og útvarpið… vel á minnst… það var að vísu komið á laggirnar 1957, en var ekki í loftinu nema þrjá til fjóra tíma á dag fyrstu tuttugu árin.“

Ræst úr færeyskunni

„Að vísu hefur rætst úr fyrir færeyskuni á síðustu áratugum. Bókaútgáfa hefur stóreflst, orðabókaútgáfum hefur fjölgað talsvert með nýrri tækni og vefsíðu forlagsins Sprotin er ókeypis aðgangur að tuttugu og átta orðabókum milli færeysku og erlendra tungumála. Kennsla í skólum byggist að verulegu leiti á færeysku námsefni að minnsta kosti í grunnskólum, stjórnsýslan er orðin færeysk að mestu og þar fram eftir götunum.“

Andvaraleysi yfirvalda

Færeyska.
Íslenska og færeyska eru líka mál – en oft þurfa Íslendingar að vara sig í Færeyjum!

„En samt á færeyskan í vök að verjast gagnvart dönskunni og í vaxandi mælandi enskunni,“ heldur Carl Jóhan áfram. „Færeyskan stendur höllum fæti í tölvuvæðingunni þar er enskan allsráðandi ásamt dönskunni, en færeyskunni úthýst með öllu…hérlend stjórnvöld eru eins og með glýju í augun… þau eru í óða önn að tölvuvæða skólakerfið og láta sér velferð tungumálsins í léttu rúmi liggja og láta undir höfuð leggjast að útvega stafrænt námsefni á færeysku… telja það helst vera til trafala og þránd í götu brýnna framfara.

Á Íslandi er mikið talað um hversu tvísýnt er um framtíð íslenskunnar, en þó er staða hennar miklu öflugri á nærri öllum sviðum… miðað við færeyskuna að minnsta kosti…Færeyskan á í alvarlegum erfiðleikum um þessar mundir, en aðallega vegna andvaraleysis færeyinga sjálfra gagnvart tungu og úrræðaskorts…það er eins og menn vilja bara spara sér ómakið af að efla og þróa tungumálið áfram…en samt er ég nú ekki svartsýnni á framtíð færeysku en svo að ég læt ekki deigan síga við skriftirnar.“

Carl Jóhan hefur fimm sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, nú síðast fyrir skáldsöguna Eg síggi teg betri í myrkri. Nýjasta bók hans er Terningar/ søgur av tilvild. Hann stundaði nám við Háskóla Íslands á níunda áratugnum og hefur þýtt verk eftir Einar Kárason á færeysku.

Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn 21.febrúar
Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn 21.febrúar