Jemen: 900 börn drepin í fyrra

0
456
Yemen OCHA YG7A9084 2015

Yemen OCHA YG7A9084 2015

29.mars 2016. Sex börn deyja eða særast daglega í átökunum í Jemen og tíu ára gömul börn eru þvinguð til hermennsku.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir í nýrri skýrslu um stöðu barna í Jemen (Children on the Brink) að 900 börn hafi verið drepin á síðasta ári og 1300 hafi særst.

Þessar tölur eru nærri sjö sinnum hærri en árið 2014. Fimmtíu staðfestar árásir hafa verið gerðar á skóla, börn hafa látist jafnt innan veggja skólanna sem á leið til og frá skóla. Hætt er við að þessar tölur séu einungis toppur ísjakans því þær ná aðeins yfir þau mál sem UNICEF náði að staðfesta.

„Börn líða mest í átökum sem þau bera enga ábyrgð á,“ segir Julien Harneis, oddviti UNICEF í Jemen. „Þau eru drepin eða limlest um allt landið og eru hvergi óhult. Þau eru í lífshættu hvort sem þau eru að leika sér eða sofandi.“

Börn eru í sífellt ríkari mæli látin stunda hermennsku, bera vopn og gæta götuvígja, svo dæmi séu nefnd. UNICEF hefur staðfest 848 dæmi um að börn hafi verið þvinguð til hermennsku allt niður í tíu ára aldur.