Karlar rísi upp í þágu kvenna

0
544

Violence against women

8.mars 2014. Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum herferðinni “Hann fyrir hana” í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna.

Sameinuðu þjóðirnar hvetja karla til að rísa upp til þess að efla réttindi mæðra þeirra, systra og dætra. Embættismenn samtakanna leggja áherslu á að það sé ekki nein draumsýn að konur njóti til fullnustu allra mannréttinda, heldur sé það skylda okkar allra að sjá til þess að svo verði.

“Um allan heim er mismunun í garð kvenna og stúlkna landlæg og sums staðar fer ástandið versnandi. En við vitum einnig að jafnrétti kynjanna stuðlar að framþróun í þágu allra, karla jafnt sem kvenna,” sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í New York í gær við kynningu herferðarinnar.

Hann hvatti einnig karla og drengi um allan heim að ganga til liðs við málstaðinn. “Samfélög þar sem karlar og konur njóta sömu réttinda blómstra.” Þetta er leiðarljós herferðarinnar “Hann fyrir hana” sem felst í því að karlar og drengir fylkja sér undir merki jafnréttis kynjanna og verða myndbönd þar sem málsmetandi karlar skora kynbræður sína á hólm, sýnd um allan heim. Auk Ban Ki-moon koma fram í myndböndunum Nóbelsverðlaunahafinn Desmond Tutu og leikarinn Antonio Banderas.

“Ég vil þakka ykkur, körlum og drengjum, sem hafið látið rödd ykkar heyrast en eins og þið vitið hvílir helmingur himinsins á herðum kvenna. Við hvetjum ykkur, karlar, til þess að halda uppi hinum helmingnum”, sagði Phumzile Mlambo-Ngcuka, forstjóri UN Women, Jafnréttistofnunar Sameinuðu þjóðanna.