Kastljós á Norðurlandabúa: Grete Faremo

0
591
Faremo á vettvangi í Perú
Faremo á vettvangi í Perú

Norræna fréttabréf UNRIC – desember 2019. Grete Faremo er að þessu sinni Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Faremo hafði langan og fjölbreyttan feril að baki sem stjórnmálamaður, lögfræðingur og stjórnandi fyrirtækja áður en hún gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar 2014.

Faremo er einn af framkvæmdastjórum samtakanna og stýrir Skrifstofu SÞ fyrir verkefnaþjónustu (United Nations Office for Project Services) (UNOPS). Faremo er einn hæst setti Norðurlandabúi sem starfar hjá SÞ. Fjárframlög til skrifstofu hennar nema tveimur miljörðum Bandaríkjadala á ári. Norræna fréttabréf UNRIC ræddi við hana um störf UNOPS. Jafnframt um tækifæri framtíðarinnar og hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á störf stofnunarinnar.

UNOPS – framkvæmdaarmur SÞ

Faremo hefur verið í brúnni hjá UNOPS frá 2014 og stýrir 11 þúsund starfsmönnum. Hlutverk UNOPS er að hjálpa Sameinuðu þjóðunum og samstarfsaðilum þeirra að tryggja frið og öryggi í heiminum. Einnig að koma mannúðaraðstoð til skila og greiða fyrir þróunarstarfi um allan heim. Þá er markmiðið að hjálpa við að bæta líf fólks og glæða sjálfbæra þróun. Starfið felst í að hleypa ýmsum verkefnum af stokkunum með gildi samtakanna að leiðarljósi og skilvirkni að hætti einkageirans.

„UNOPS starfar í meir en 80 ríkjum og lýkur eitt þúsund verkefnum á hverju ári. 5 þúsund starfsmanna okkar þjóna öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þær kaupa þjónustu af okkur. Þær njóta góðs af auknum sveigjanleika, hraða og aðlögunarhæfni sem við höfum þróða með okkur. Þjónustan er allt frá því að stýra innviðum, útboðum og sjóðstýringu auk mannauðs- og verkefnastjórnunar,” segir Faremo.

Faremo sinnir áhættustýringu en telur ekki síður mikilvægt að segja söguna af starfi og árangri UNOPS.

„Það er eitt af mínum mikilvægustu verkefnum að koma því til skila hvert hlutverk okkar og gildi eru og hvaða verkefnum við sinnum. Ég einbeiti mér að áhættustýringu til að kanna hvaða tækifæri eru í boði. Einnig til þess að tryggja gæði og koma í veg fyrir slys og meiðsli starfsfólks. Þetta tryggir að við skilum eins góðri þjónustu og hægt er til viðskiptavina okkar,“ segir hún.

Að stýra UNOPS eftir viðskiptahugmynd

Í nýlegu viðtali við Harvard Business Review, sagði Feremo frá umbreytingu UNOPS, frá því að vera hluti af Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) á tíunda áratugnum í þá snaggaralegu nútímastofnun sem UNOPS er í dag. Stofnunin verður að fylgjast með tímanum og sigrast á áskorunum til þess að eiga erindi í síbreytilegu pólitísku landslagi heimsins.

„Áskoranir okkar og tækifæri hverfast um að starfa eftir opinni og aðgengilegri viðskiptahugmynd. Við erum verkefnamiðuð samtök og árangur okkar af fyrri störfum talar sínu máli. Ég held að helstu tækifæri okkar felist í því að takast á hendur stærri verkefni á sviði innviða og að eiga samvinnu við opinbera og einkageirann þar sem UNOPs getur tekist á hendur að greiða fyrir framkvæmdinni,” sagði Faremo.

UNOPS hefur sannað tilverurétt sinn með því að þróa hugmyndir um samstarf við einkageirann við umfangsmikil verkefni og bæta opinber innkaup.

„Við störfum í sívaxandi mæli beint með ríkisstjórnum jafnvel í miðtekjuríkjum. Við erum ráðgjafar um bætt opinber innkaup og eflum hæfni, innkaupakerfi og framkvæmd. Til dæmis með því að tryggja að tæki í heilsugæslunni fáist á réttu verði. Við höfum unnið mikið starf við þetta sérstaklega í Mið- og Suður-Ameríku.”

Með stuðningi Alþjóðabankans, annara þróunarbanka og stofnana SÞ, hefur UNOPs einnig unnið ð verkefnum á hamfara- og stríðshrjáðum svæðum.

„Við störfum á Gasa-svæðinu, í Jórdaníu, Sýrlandi, Írak og Jemen. Við sinnum innkaupum á hamfara- og átakasvæðum, og vinnum að innviða -og ýmiss konar samvinnuverkefnum með einkageiranum,“ segir hún.

Loftslagsbreytingar og UNOPS

Áhrif loftslagsbreytinga koma sífellt betur í ljós og Faremo bendir á að starf UNOPS sé ekki einungis að endurbyggja heldur að efla loftslagsviðnám.

„Samstarfsmenn mínir reyna að tryggja að tekið sé tillit til náttúruhamfara í verkefnum. Við sinnum mörgum verkum í litlum eyríkjum og löndum sem glíma við hækkun yfirborðs sjávar. Við leggjum metnað í að verkin séu vel unnin. Við vinnum á kerfisbundnari hátt en við gerðum fyrir örfáum árum,“ segir Faremo.

Í samræmi við nýja sýn er reynt að beita heildrænni nálgun til þess að styrkja og bæta samfélög og stofnunin reynir að þróa aðferðir við að skapa fjöl-markmiða verkefni. Slíkt er mjög í samræmi við svokallaða Áætlun 2030 og 17 heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

„Í Tansaníu höfum við byggt á ný árbakka sem höfðu skolast burtu en einnig komið upp lýsingu og aðstöðu fyrir markaði sem haldnir eru á sama svæði. Þessar aðgerðir efla ekki aðeins viðskipti á svæðinu heldur eru lóða á vogarkálar gegn uppblæstri.“

Að vinna fyrir SÞ eru forréttindi

Það þarf ekkert að koma á óvart miðað við fyrri störf að Faremo sem er fyrrverandi þróunarmálaráðherra Noregs skuli hasla sér völl á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

„Að stýra UNOPS eru forréttindi. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum einasta degi við hlið svo margra starfsfélaga jafnt innan raða UNOPS sem annara stofnana SÞ. Gleymum því ekki að við vinnum með langflestum þeirra. Að þessu leyti nýt ég líka þeirra forréttinda að vinna þvert á verkaskiptinguna innan samtakanna og mér finnst starf mitt þjóna skýrum tilgangi, sagði Faremo og lýkur viðtalinu með því að hvetja hugsjónafólk til að slást í lið með Sameinuðu þjóðunum.

„Við hjá UNOPS erum alltaf að auglýsa lausar stöður á vefsíðu okkar. Það eru mörg tækifæri bæði víða um heim og í höfuðstöðvum okkar í Kaupmannahöfn, þannig að það borgar sig að fylgjast með okkur!“