Klasasprengjur ógna óbreyttum borgurum, einkum börnum

0
636

–eftir John Holmes, aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðaraðstoðar. 

Við höfum öll þörf fyrir að heyra góðar fréttir á þessum síðustu og verstu tímum. Ákvörðun fimmtíu ríkja um að undirrita sáttmála um að banna notkun klasasrprengja eru svo sannarlega góðar fréttir. Í sáttmálanum sem verður undirritaður í Osló 3. desember, felst tækifæri fyrir ríkisstjórnir heims að bjarga lífi óteljandi óbreyttra borgara, sérstaklega barna og draga úr þjáningum. Ákvörðun þessara ríkja er til marks um siðferðislegan styrk og öfluga alþjóðlega forystu.  

 

 

Það er gríðarlega þýðingarmikið af mannúðarástæðum að gera klasasprengjur útlægar úr vopnabúrum og af vígvöllum. Óbreyttum borgurum stafar hætta af þessum vopnum jafnt á meðan á átökum stendur og eftir að þeim lýkur.

Klasasprengja er málmhylki sem opnast á flugi og losar fjölda smásprengna sem dreifast yfir stórt svæði, jafnvel hundruð metra. Þegar smásprengjurnar springa eyðileggja þær eignir og innviði og drepa og særa fólk. Upphaflega voru þessi vopn framleidd til þess að ráðast gegn skotmörkum á borð við flugvelli en þeim er oft beitt af ónákæmni og handahófi. 

Stundum springa smásprengjurnar ekki ýmist viljandi eða óviljandi. Margar springa síðar þegar bifreiðar aka yfir þær eða dýr eða fólk stíga á þær. Þannig verða bændur, flóttamenn á heimleið, hjálparstarfsmenn og friðargæsluliðar fyrir barðinu á þeim. Klasasprengjur hafa verið notaðar á stöðum á borð við Afganistan, Tsjad, Erítreu, Eþíópíu, Írak og Kosovo á undanförnum þrjátíu árum. Þær eru enn þann dag í dag banvæn arfleifð átaka sem menga ræktarland og skaða íbúa þúsunda samfélaga. 

Báðar stríðandi fylkingar í átökunum í Líbanon 2006 notuðu klasasprengjur. Tvö hundruð þúsund flóttamenn gátu ekki snúið aftur heim til sín vegna fjölda ósprunginna klasasrpengja í þéttbýli. Fátækir bændur máttu ekki við því að geta ekki ræktað land sitt vegna fjölda ósprunginna sprengja. 

Nú síðast í ágúst var klasasprengjum beitt í hinu stutta stríði Rússa og Georgíumanna í suður Ossetíu. 

Þegar til lengri tíma er stafar óbreyttum borgurum meiri hætta af þessum vopnum en hermönnum. Þau eru börnum sérstaklega skeinuhætt. Forvitni er börnum eðlislæg og vopnin minna oft á leikföng. Þegar smásprengjurnar springa deyja börnin, eða særast og verða fyrir áfalli sem varir alla ævi.

Þau ríki sem undirrita og staðfesta sáttmálann í Osló munu þegar í stað banna notkun allra fyrirliggjandi klasasprengja. Í sáttmálanum er einnig hvatt til eyðileggingar allra birgða innan átta ára. Þetta er mikilvægt til þess að hindra að vopnin verði seld til landa sem leyfa notkun þeirra.

Það er einnig þýðingarmikið að samkomulagið nær ekki aðeins til hugsanlegra fórnarlamba heldur einnig til þeirra sem nú þegar hafa skaðast af völdum þessara vopna. Í sáttmálanum eru ríki hvött til þess að veita eftirlifandi fórnarlömbum klasasprengja læknisfræðilega- fjárhagslega- og sálfræðilega aðstoð. Þá er kveðið á um að hreinsa beri landssvæði sem þakin eru ósprungnum klasasprengjum innan tíu ára

Þetta yrði sérstakt fagnaðarefni fyrir ríki á borð við Laos, Víetnam og Kambodíu. Þau voru meðal fyrstu ríkja þar sem klasasprengjum var biett á sjöunda áratugnum og líða enn fyrir notkun þeirra meir en þrjátíu árum síðar. 80 milljónir ósprunginna smásprengja eru dreifðar um allt Laos og er fjórðungur alls landsvæðis talinn of hættulegur til að leyfa umferð fólks. Klasasrpengjur kosta enn mannslíf í Laos, hindra örugga nýtingu lands og þróun samgöngukerfa og annara inniviða. 

Ég hvet öll ríki til að undirrita og staðfesta sáttmálann um klasasprengjur án tafar og hrinda honum síðan í framkvæmd. Jafnvel þau ríki sem hvorki framleiða né beita slíkum vopnum ættu að leggja sitt lóða á vogarskálarnar, til þess að stuðla að víðtækri samstöðu gegn hugsanlegri beitingu þeirra í framtíðinni.
 
Það er á okkar valdi að hindra enn frekari mannlega harmleiki vegna notkunar klasasprengja. Grípum þetta tækifæri.