Postulínið sem bjargar mannslífum

0
699
Alþjóðlegi klósettdagurinn

Alþjóðlegi klósettdagurinn er haldinn ár hvert 19.nóvember. Tilgangurinn er sá að vekja almenning til vitundar um þann gríðarlega vanda sem felst í því að nærri helmingur mannkyns, 4.2 milljarðar manna hafa ekki aðgang að sómasamlegu salerni og hreinlætisaðstöðu.

Þetta mál er svo brýnt að eitt Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun er helgað hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Stefnt er að því að allir jarðarbúar njóti slíks fyrir 2030.

Salerni er ekki sjálfsagt mál

Flestir telja salerni á heimili, lagnir í húsum og frárennsli skólps sjálfsagðan hlut. Þegar sturtað er niður eða tappi tekinn úr baðinu hverfur vatn og skólp „út í buskann” eins og hendi sé veifað.

En svona var þetta ekki alltaf hér á landi eða í okkar heimshluta. Áður en lagnir í hús komu til sögunnar og skólprör voru lögð í jörðu, rann skólp um miðjar götur. Svona var þetta þegar franski myndlistarmaðurinn Auguste Mayer teiknaði Aðalstrætið árið 1836. Konur sóttu vatn í fötur í dælu og skólp rann í ræsi á miðri götunni. Þetta voru vitaskuld hreinustu sóttkveikjur.

Daunillt víða

Í borgum og bæjum í Evrópu voru markaðir þar sem boðið var upp á ilmsælt nýbakað brauð, kjöt, grænmeti og ávexti. En ilmurinn af ferskum vörum blandaðist lyktinni af skólpinu sem rann út um allt. Fólk hnaut um saur á miðjum götum. Og þegar gengið var um stræti borga þurfti fólk að varast að verða fyrir innihaldi koppa sem losaðir voru út um glugga.

Kólera blossaði upp í Evrópu með nokkuð reglulegu millibili að ekkki sé minnst á niðurgangspestir og taugaveiki. Allt barst þetta með menguðu drykkjarvatni. Kaupmannahöfn var fræg að eindemum fyrir mikinn óþef og París hafði afar slæmt orð á sér. Ferðamenn sem komu til Reykjavíkur kvörtuðu þó fyrst og fremst yfir lykt af úldnum fiski. Svona var þetta víðast hvar í Evrópu fyrir hálfri annari öld og svona er ástandið enn víða um heim.

Umfang hreinlætisvandans

Alþjóðlegi klósettdagurinn
Talið er að nærri 4.2 milljarða jarðarbúa skorti enn aðgang að öruggri hreinlætisaðstöðu. Þetta er meir en helmingur jarðarbúa. Níu af hverjum tíu þeirra sem ekki hafa lágmarks hreinlætisaðstöðu búa í þremur heimshlutum. Þeir eru mið og suður Asía, Afríka sunnan Sahara og austur og suð-austur Asía.

Helstu sjúkdómar sem þrífast þar sem hreinlætisaðstöðu er ábótavant eru kólera, niðurgangspest, blóðkreppustótt, taugaveiki og lömunarveiki. Niðurgangspestin ein banar 480 þúsund börnum á hverju ári. Þetta er sjúkdómur sem má auðveldlega varast með því einu að þvo sér um hendur og hafa aðgang að hreinlætisaðstöðu svo sem salerni.

Léleg hreinlætisaðstaða dregur einnig úr vellíðan og lífsgæðun, leiðir til vannæringar, dregur úr félagslegri og efnahagslegri þróun svo eitthvað sé nefnt.

Líkur á nauðgun og kynferðislegri áreitni vex þegar konur þurfa sífellt að ganga örna sinna á bersvæði. Stúlkur heltast jafnvel úr lestinni í skólagöngu þegar þær byrja að hafa blæðingar og komast ekki afsíðis.

Aðgerðir

SalerniÞáverandi var-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Jan Eliasson, beitt sér fyrir áætlun árið 2013 um að bundinn yrði endir á saurlát á víðavangi fyrir 2025. Sjötti liður Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun miðar að því að tryggja öllum aðgang að ferskvatni og hreinlætisaðstöðu fyrir 2030.

Þá hafa stofnanir Sameinuðu þjóðanna á borð við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO); Barnahjálpina (UNICEF) og samstarfsaðilar þeirra allir á stefnuskrá sinni að berjast gegn þessum vanda.

1.1.milljarður manna verður að gera sér að góðu að ganga örna sinna á víðavangi. Að mati Sameinuðu þjóðanna búa 82% þessa fólks í aðeins tíu ríkjum. Þau eru Indland, Indónesía, Pakistan, Nígería, Eþíópía, Súdan, Níger, Nepal, Kína og Mósambík.

Klósett og loftslagsbreytingar

Aðgangur að salerni getur reyndar skipt máli í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Skólp inniheldur verðmætt vatn, næringu og orku. Ef hægt væri að nýta það með sjálfbæru hreinlætiskerfi yrði það víða vatn á myllu landbúnaðar og uppsrpetta grænnar orku. Sjálfbært hreinlæti byrjar með því að komið er upp salernisaðstöðu þar sem mannlegum úrgangi er safnað á öruggan stað og þróin síðan tæmd með reglulegu millibili.

Næsta stig er hreinsun skólpsins og örugg förgun. Örugg endurvinnsla skólps dregur úr eyðslu vatns. Hún dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda við orkuframleiðslu. Hún getur þjónað landbúnaði með öruggri uppsrpettu vatns og næringarefna.

Í Heimsmarkmiði númer 6 er stefnt að því að allir hafi aðgang að sjálfbærri hreinlætisaðstöðu, auk hreins vatns og handþvottaðastöðu. Þetta er brýnt til að þess að tryggja heilbirgðis-öryggi okkar og að stöðva útbreiðslu smitsjúkdóma á borði við COVID-19, kóleru og tuagaveiki.

Sjá nánar:  https://www.worldtoiletday.info/