Krabbameinsgreiningum fækkað vegna COVID-19

0
703
Krabbamein og COVID

COVID-19 faraldurinn hefur haft veruleg áhrif á meðferð við krabbameini víða um heim. Skimunum, aðgerðum og minniháttar rannsóknum hefur verið frestað. Þetta kann að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda manns á komandi árum. Sérstaklega er það vegna áhrifa á snemmbæra meðferð við krabbameini.

Dr Hans Kluge forstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hefur varað við  „margvíslegri ógn” sem stafaði af hliðaráhrifum COVID-19.  „Við getum ekki litið framhja…krabbameinsfaraldrinum”, sagði hann á Alþjóða krabbameinsdeginum nýverið. Krabbamein er ein algengasta dánarorsökin í Evrópu og grandar 2.2 milljónum manna að meðaltali á ári.

Skimun sjúklinga í hættu

krabbamein og COVID
Mynd: WHO

Krabbameinsþjónusta í þriðja hverju ríki á Evrópusvæði WHO raskaðist í upphafi COVID faraldursins. Í fyrstu lokunahrinunni fækkaði sjúklingum hjá 60% krabbameins-geislameðferðarstöðva í Evrópu.

Samvæmt bráðabirgðatölum Krabbameinsfélagsins fækkaði skráðum krabba­meins­grein­ingum í mars, apríl og maí 2020 um 14-18% samanborið við sömu mánuði árin 2017-2019.

Sömu sögu er að segja í flestum Evrópuríkjum. Í Danmörku fækkaði greindu krabbameini um þriðjung 2020 miðað við tölur fimm ára þar á undan. Ekki er ótrúlegt að draga þá ályktun að 2800 hefðu verið greind með krabbamein ef allt hefði verið með felldu. Sjúkdómurinn hverfur vitaskuld ekki en meðferð dregst hugsanlega á langinn með alvarlegum afleiðingum.

Sambærileg tala í Frakklandi er 30 þúsund. Í Belgíu fækkaði greiningum um 44% og 20-25% í Hollandi í fyrstu lokunarhrinunni.

Margslungin áhætta

Fyrir utan greiningar hefur fólk með krabbamein verið ófúst að fara á sjúkrahús af ótta við COVID smit. Ekki nóg með að sjúklingar glími við skerta virkni ónæmiskerfisins vegna meðferðar, heldur verður að stöðva meðferð á meðan sjúklingur er COVID-smitaður. Þar að auki hafa krabbameinslæknar sum staðar verið fluttir á aðrar deildar þar sem sjúkrahús hafa verið að sligast undan álagi sökum COVID faraldursins.

Aðgerðir gegn krabbameini

Í baráttunni gegn krabbameini hefur samvinna innan Evrópu verið þýðingarmikil. WHO í Evrópu hefur hleypt af stokkunum herferðinni “Sameinaðar aðgerðir gegn krabbameini“ ( United Action Against Cancer) en þar er hvatt til aðgerða á mörgum sviðum til að draga úr hættu á krabbameini.

Dr Liesbet Van Eycken krabbameinssérfræðingur í Belgíu segir að meðvitaðar ákvarðanir skipti sköpum. Þar á meðal er heilbrigður lífsstíll sem felur í sér heilnæma fæðu, íþróttaiðkun og að láta skima sig.  „Þá er einnig lykilatriði að hafa aðgang að skjótvirkri heilsugæslu sem er eiginleika- og einstaklingsmiðuð.”

Dr Van Eycken segir ástæðulaust að óttast bólsuetningar við COVID-19.  „Krabbameinssjúklingum verður ekki gleymt í bólusetningarherferðum. Þvert á móti eru þeir settir í forgang. Þeir ættu ekki að láta hugfallast, því við þokumst áfram. Mikilvægast er að fylgjast vel með.”