Kvennadagurinn í 100 ár og enn mikið ógert

0
494
alt

Hundrað ár eru liðin frá því millljónir kvenna fylktu í fyrsta skipti liði á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Sameinuðu þjóðirnar telja
að þótt mikið hafi áunnist á þessum tíma, sé enn mikið verk óunnið í að útrýma kynbundinni mismunun.  alt

“Konur eru enn annars flokks borgarar í of mörgum ríkjum,” sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á kvennadaginn.
Þótt munur á menntun eftir kynjum sé að minnka er enn stórt bil innan og á milli landa og allt of mörgum stúlkum er meinað um skólagöngu eða hætta fyrr í skóla en drengir með minni menntun og færri tækifæri.

“Konur og stúlkur þurfa enn að þola ólíðandi mismunun og ofbeldi, oft af hálfu ástvina sinna eða ættingja. Konur standa of oft höllum fæti á heimilum, á vinnustöðum og í samfélaginu. Og á átakasvæðum er kynferðislegt ofbeldi beitt kerfisbundið og af ásettu ráði til að fylla konur og heilu samfélögin skelfingu.”

                                                                                                                                 Konur í Darfur 8. mars. SÞ-mynd: Albert Gonzalez Farran

 

Michelle Bachelet, forstjóri UN Women, hinnar nýju jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna nefndi séstaklega það sem áunnist hefur á síðastliðinni öld í ávarpi sínu á kvennadaginn. Fyrir hundrað árum höfðu konur aðeins kosningarétt í tveimur ríkjum en nánast alls staðar í dag.

“Ég býst við að ef frumherjarnir væru  á meðal vor í dag, myndu þær litast um með samblandi af stolti og vonbrigðum. Það hafa orðið miklar framfarir undanfarna öld í að auka lagaleg réttindi og hlunnindi kvenna. Raunar er framgangur kvenna einhver mesta þjóðfélagsbylting sögunnar.   

„En þrátt fyrir þessar framfarir er langt frá því að allt hafi ræst sem óskað var eftir á fyrsta Alþjóðlega baráttudegi kvenna.  Næstum tveir af hverjum þremur ólæsum í heiminum eru konur. Á níutíu sekúndna fresti deyr kona á meðgöngu eða af barnsförum, þrátt fyrir að við búum yfir þekkingu og útbúnaði til að fæðingar ættu að vera öruggar. ”

Hún lagði áherslu á að um allan heim bæru konur minna úr býtum en karlar fyrir sams konar störf og í mörgum ríkjum hefðu þær skertan rétt til lands og erfða.
Konur eru aðeins 19% þeirra sem sitja á löggjafarsamkundum, 8% þeirra sem semja um frið og aðeins 28 konur eru yfirmenn ríkja eða ríkisstjórna.