Kvennasamtök standa ekki lengur ein

0
418
alt

Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á Alþjóðlegum degi upprætingar ofbeldis gegn konum 25. nóvember 2010:

alt

Nú, á Alþjóðlega deginum sem helgaður er upprætingu ofbeldis gegn konum, er ástæða til að minnast umfangsmikillar og sívaxandi viðleitni til að kljást við þetta brýna málefni. Kvennasamtök standa ekki lengur ein í baráttunni.

Hvarvetna í heiminum láta jafnt karlar og drengir, ungir sem gamlir, tónlistarmenn, frægt fólk og íþróttahetjur, fjölmiðlar og almenningur, sífellt meira til sín taka í viðleitni til að vernda konur og auka áhrif þeirra og réttindi.

Almannasamtök og einstaklingar hafa beitt sér fyrir næstum einni milljón aðgerða og verkefna sem skráðar hafa verið hjá “Say NO-UniTE”. Baráttufólk á fimmtu Alþjóðlegu ungmennaráðstefnunni í Mexíkó sendi skýr skilabð í ágúst síðastliðnum: “Það er kominn tími til að binda enda á ofbeldi gegn konum og stúlkum!” Aðildarríkin leggja líka sitt af mörkum. Meir en hundrað skýrslur hafa borist frá ríkisstjórnum í upplýsingasafn mitt um umfang, eðli og afleiðingar ofbeldis gegn konum en þar eru einnig skráðar aðgerðir og áætlanir til að stemma stigu við þessum vágesti.

Í ár er dagurinn helgaður því hlutverki sem atvinnulífið getur leikið, hvort heldur sem er í því að þróa verkefni eða takast á hendur fjármögnun félagasamtaka sem berjast gegn ofbeldi auk þess að gangast undir grundvallarhugmyndir um félagslega ábyrgð.  UN Global Compact og UNIFEM hafa beitt sér fyrir verkefninu “Grundvallaratriði valdeflingar kvenna,” sem tíundar kostnað atvinnulífsins af ofbeldinu gegn konum. Hundrað og tuttugu fyrirtæki styðja verkefnið. Engu að síður er margt enn ógert. Fyrirtæki geta hjálpað okkur að hindra þau mörgu birtingarform ofbeldis sem konur og stúlkur búa enn við hvort heldur sem er á heimilum, í skólum, á skrifstofum, í flóttamannabúðum eða á átakasvæðum.

 Herferð mín UNiTE to End Violence against Women og Tengslanet karlleiðtoga sem ég hleypti af stokkunum í fyrra hafa komið hreyfingu á málin. Sífellt fleiri átta sig á því að það ber að gera ofbeldi gegn konum og stúlkum útlægt úr samfélaginu og refsileysi gerenda verður ekki lengur liðið. Á þessum alþjóðlega degi, hvet ég alla, ríkisstjórnir, borgaralegt samfélag, einkageirann og einstaklinga til að taka ábyrgð á því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum.